Þarf fleiri reiðnámskeið fyrir fatlaða

Forseti Íslands kynnti sér reiðnámskeið fyrir fatlaða hjá hestamannafélaginu Herði.
Forseti Íslands kynnti sér reiðnámskeið fyrir fatlaða hjá hestamannafélaginu Herði. Ljósmynd/Aðsend

„Við köllum eftir því að fleiri hestamannafélög á höfuðborgarsvæðinu bjóði upp á reiðnámskeið fyrir fatlað fólk. Við náum því miður ekki að anna eftirspurninni og biðlistarnir eru mjög langir,“ segir Oddrún Sigurðardóttir, stjórnarmaður í hestamannafélaginu Herði, þroskaþjálfi og reiðkennari. Hestamannafélagið Hörður var með kynningarfund á starfsemi reiðskólans fyrir fatlað fólk í vikunni og var forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, heiðursgestur fundarins.

Hestamannafélagið Hörður hefur um nokkurt skeið boðið upp á reiðnámskeið fyrir fatlað fólk, aðallega börn, en þó einnig fyrir fullorðna. Hestamannafélagið Hörður er fyrsta félagið á Íslandi sem býður upp á slík námskeið. Námskeiðin byrjuðu árið 2010 í samstarfi við Hestamennt, reiðskóla Berglindar Ingu Árnadóttur. Námskeiðin eru 6 til 7 sinnum í viku og suma daga nokkur á hverjum degi.

Fyrir þremur árum kíkti mbl.is í heimsókn á reiðnámskeiðið hjá Berglindi sem má sjá í þessu myndskeiði hér

Oddrún bendir á að þessi námskeið séu mjög kostnaðarsöm, t.d. þarf sérstaka hnakka svo fólk með mismikla fötlun komist á bak, sumir þurfa allt að tvo til þrjá aðstoðarmenn með sér auk kostnaðar við launagreiðslur og rekstur á hrossunum. „Sjálfboðaliðar vinna einnig á námskeiðunum og það er spurning hversu lengi við getum haldið því gangandi,“ segir Oddrún.

Reiðnámskeið fyrir fatlaða eru ekki ný af nálinni en Ísland er aftarlega á merinni þegar kemur að framboði á slíkum námskeiðum ef miðað er við önnur lönd. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að bæði andleg og líkamleg heilsa fatlaðra styrkist með því að fara á hestbak, segir Oddrún.

Þarf fleiri að borðinu og meira fjármagn

„Þetta er gríðarlega mikilvægt starf og til að ná að sinna því betur og bæta það þarf að fá fleiri að borðinu og meira fjármagn,“ segir Oddrún. Hugmyndin er að stofnað verði sérstakt félag um námskeiðin með aðkomu allra hestamannafélaganna á svæðinu. Með þeim hætti væri hægt að bjóða upp á námskeið fyrir fólk með mismikla fötlun milli hestamannafélaga. „Hér gætum við verið með námskeið fyrir einstaklinga sem eru í hjólastól því við erum með lyftu. Önnur félög gætu boðið upp á námskeið fyrir fólk með minni fötlun,“ segir Oddrún.  

Hestamannafélög á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið vel í þetta, að sögn Oddrúnar. Næsta skref er að ná fundi með þeim öllum saman. Hún er bjartsýn á að fleiri hestamannafélög sinni einnig þessum hópi en hún vill samt sem áður sjá boltann rúlla af meiri krafti.  

Margir kynntu sér starfsemina í gær.
Margir kynntu sér starfsemina í gær. Ljósmynd/Aðsend
Það er gaman á hestbaki.
Það er gaman á hestbaki. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert