Auglýsendur geti ekki firrt sig ábyrgð

Ljót sár geta myndast eftir utanvegaakstur.
Ljót sár geta myndast eftir utanvegaakstur. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölmörg dæmi eru um utanvegaakstur í íslenskri náttúru og fer þeim fjölgandi frekar en hitt.

Davíð Örvar Hansson, stöðvarstjóri hjá Umhverfisstofnun í Mývatnssveit, hefur vakið athygli á ábyrgð auglýsenda þegar kemur að utanvegaakstri í færslu á Facebook-síðu Umhverfisstofnunar.  

Þar bendir hann á að ferðaþjónustuauglýsingum fylgi oft heillandi myndir sem sýna einstakling í ólýsanlegum aðstæðum í sól og góðu veðri á stað þar sem ekkert gæti farið úrskeiðis. „Ímyndasköpunin er þó oft villandi og í sumum tilfellum stórhættuleg og getur hvatt til lögbrota. Myndir af fólki standandi á ísjökum í Jökulsárlóni, syndandi í brimkatli á Reykjanesi eða keyrandi um svarta sanda í fjörum eða langt frá manngerðum vegum er ekki óalgeng sjón,“ segir Davíð.

Umhverfisstofnun hafa borist fjölmargar ábendingar um það sem miður fer í íslenskri auglýsingagerð.

Davíð segir því fylgja mikil ábyrgð að veita upplýsingar eða kynna viðkomustað fyrir framtíðargestum. „Auglýsendur, hvort heldur þeir sem framleiða auglýsingar eða þeir sem kaupa auglýsingar, verða að hafa í huga að þessu fylgir sú ábyrgð að leiða fólk ekki í villu. Að vera leiddur í stórhættu eða í að framkvæma lögbrot er óásættanleg staða. Það er á ábyrgð Íslendinga að kynna landið á réttum forsendum,“ segir í færslu Davíðs.

Hann hvetur fólk til að hætta að kynna landið með myndum af bílum í akstri utan vega eða með því að birta húsbíla á áreyrum. „Upplýsingum og kynningu fylgir hvatning og auglýsendur geta ekki firrt sig ábyrgð á þeim óförum sem fólk leiðist í vegna myndbanda og mynda sem innihalda slæman boðskap og send eru út á öldum ljósvakans.“

Færsla Umhverfisstofnunar í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert