Ekki vitað um íbúa húss sem brann

Lögreglan á Egilsstöðum er með málið til rannsóknar.
Lögreglan á Egilsstöðum er með málið til rannsóknar. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúðarhús í dreifbýli á Héraði, rétt fyrir utan Egilstaði, brann til kaldra kola fyrr í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum var tilkynnt var um eldinn rétt fyrir hádegi í dag og var húsið alelda þegar slökkvilið kom staðinn.

Einn einstaklingur er skráður til heimilis á bænum, en ekki er vitað hvort hann var í húsinu þegar það brann. Lögreglunni hefur ekki tekist að hafa uppi á honum. „Við vitum ekki hvar íbúi hússins er, þannig við getum ekki staðfest eitt eða neitt, við erum bara að rétt að byrja að skoða þetta,“ segir Jónas Vilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Egilsstöðum.

Rannsókn lögreglu er á frumstigi og ómögulegt að segja til um eldsupptök að svo stöddu. Jónas telur að rannsóknin muni taka dágóðan tíma, en hann getur ekki útilokað að um íkveikju hafi verið að ræða. Hlaða við bæinn brann á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert