Nálgunarbann gagnvart barnsmóður staðfest

Maðurinn má ekki nálgast konuna með neinum hætti, en þetta …
Maðurinn má ekki nálgast konuna með neinum hætti, en þetta er í annað sinn sem hann sætir nálgunarbanni gagnvart henni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni gagnvart barnsmóður sinni allt til 22. janúar næstkomandi. Maðurinn má ekki koma í námunda við heimili konunnar á því svæði sem afmarkast við lóðamörk fjölbýlishúss sem hún býr í. Jafnframt er lagt bann við því að hann veiti henni eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi henni tölvupóst eða setji sig í samband við hana beint á annan hátt.

Er þetta í annað sinn sem manninum gert að sæta nálgunarbanni gagnvart konunni en í fyrra skiptið braut hann gegn banninu sex sinnum á tveggja vikna tímabili. Var hann sakfelldur fyrir þau brot og gert að sæta fangelsi í 18 mánuði en fullnustu 17 mánaða refsingar var frestað í tvö ár.

Í úrskurði héraðsdóms segir að brotaþoli og kærði hafi verið í sambúð og eigi saman tvö ung börn. „Við skoðun í dagbók lögreglu megi sjá að lögregla hafi reglulega undanfarin ár, haft afskipti af kærða og kæranda vegna ágreinings þeirra í millum sem m.a. hafi leitt til þess að kærandi hefur verið beitt ofbeldi,“ segir í úrskurðinum. Um er að ræða húsbrot, eignaspjöll á heimili brotaþola og líkamsárás gagnvart henni, en eftir síðastnefnda brotið var maðurinn úrskurður í nálgunarbann gagnvart konunni í fyrra skiptið.

Reyndi að sættast í kjölfar nálgunarbanns 

Konan gaf skýrslu hjá lögreglu í lok ágúst þar sem hún skýrði frá því að í kjölfar þess nálgunarbanns hefði hún reynt að sættast við manninn þar sem hann hefði verið að taka sig á. Hann hefði farið í meðferð en ekki klárað hana. Samskipti þeirra hafi gengið vel í fyrstu en þau hafi svo farið versnandi vegna ástands ákærða. Konan taldi að hann væri aftur farinn að neyta fíkniefna og í kjölfarið tjáði hún honum að hann fengi ekki að hitta börnin í slíku ástandi og hætti samskiptum við hann.

Hún hafi hins vegar, í samráði við aðra barnsmóður ákærða, ákveðið að leyfa honum að hitta börnin að þeim viðstöddum. Þann sama dag hringdi hann í hina barnsmóðurina og kallaði brotaþola „hóru og druslu auk þess sem hann hefði hótað að drepa brotaþola ef hann fengi ekki að hitta börnin.“ Upptaka liggur fyrir af samtalinu og þar heyrist maðurinn meðal annars segja að ef konan „komi ekki með drengina ætli hann að stúta henni, hann langi að berja hana, hann langi að drepa hana og hann muni einn daginn ,,snappa“ aftur á hana. Jafnframt heyrist hann segja að hann hafi tekið brotaþola hálstaki vegna þess að hún hafi sagt við hann að hann ætti ekki börnin.“

Maðurinn setti sig einnig í samband við konuna með smáskilaboðum, hringdi í hana og hótaði að taka eigið líf ef hann fengi ekki að hitta syni sína. Það væri þá á hennar ábyrgð.

Handtekinn á heimili barnsmóðurinnar

Þann 6. september síðastliðinn kom maðurinn svo á heimili konunnar og óskaði hún eftir aðstoð lögreglu. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð. Fór lögreglustjórinn á Suðurnesjum í kjölfarið fram á að héraðsdómur staðfesti ákvörðun um nálgunarbann.

Í greinargerð lögreglu segir að maðurinn neiti sakargiftum og kveðst hann bara hafa viljað hitta strákana sína. Þó hann hafi hótað barnsmóður sinni myndi hann aldrei gera henni mein. Hann segist vera með þráhyggjuröskun sem sé erfiður sjúkdómur en hann taki inn lyf vegna hans.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telur hættu á að maðurinn muni brjóta aftur gegn brotaþola verði nálgunarbanni ekki beitt. Verndarhagsmunir séu taldir standa til þess að tryggja konunni þann rétt að geta hafst við á heimili sínu og geta verið óhult gagnvart yfirvofandi ófriði af hálfu ákærða. Ekki var talið að unnt væri að vernda friðhelgi hennar með vægari hætti eins og sakir standa. Héraðsdómur staðfesti úrskurð lögreglustjóra og nú hefur Hæstiréttur staðfest þann úrskurð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert