Meintur nauðgari þarf ekki að víkja

Hæstiréttur íslands.
Hæstiréttur íslands. Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð héraðsdóms þess efnis að manni sem grunaður er um að hafa nauðgað sambýliskonu sinni og veitt henni margvíslega áverka, verði gert að víkja úr þinghaldi á meðan hún gefur skýrslu. Konan þarf því að gefa skýrslu fyrir dómi með meintan árásarmann viðstaddan.

Dómurinn féll í Hæstarétti í gær. Þar kemur fram að samkvæmt meginreglu í sakamálaréttarfari eigi ákærði að eiga þess kost að vera viðstaddur aðalmeðferð í máli sem höfðað væri gegn honum og að undantekningar frá þeirri meginreglu bæri að skýra þröngt.

„Að því virtu að hvorki lægi fyrir vottorð læknis eða sálfræðings né að sýnt hefði verið fram á að aðstæður væru með sérstökum hætti vegna aldurs vitnis eða fjölskyldutengsla var talið að ekki væri unnt að fallast á kröfu H. Var því hinn kærði úrskurður felldur úr gildi,“ segir í reifun dómsins.

Frelsissvipting og hótanir

Maðurinn er ákærður fyrir nauðgun og brot í nánu sambandi. Hann hafi á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð sambýliskonu sinnar með ofbeldi frelsissviptingu og hótunum að kvöldi miðvikudagsins 4. janúar og fram á aðfaranótt 5. janúar.

Hann er meðal annars grunaður um að hafa þröngvað konunni til samræðis í tvígang auk þess að beita hana öðru grófu ofbeldi. Konan hlaut yfirborðsáverka víða á andliti og líkama. Hún fékk heilahristing, rof á hljóðhimnu, skurði, rispur og mar, svo eitthvað sé nefnt.

Íþyngjandi skýrslutaka

Fram kemur í dómi héraðsdóms að þau hafi búið saman í mánuð en átt áður í um fjögurra mánaða löngu sambandi. „Að virtum atvikum málsins, aðstæðum og tengslum ákærða og brotaþola þykir í ljós leitt að nærvera ákærða við skýrslugjöf geti orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi og einnig haft áhrif á framburð hennar,“ segir í dómi héraðsdóms þar sem fallist er á þá kröfu að maðurinn víki sæti á meðan skýrslutaka yfir konunni fer fram.

En eins og fyrr segir sneri Hæstiréttur þeirri ákvörðun við. Maðurinn mun því sitja skýrslutökuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert