Taldi rétt að upplýsa Bjarna um málið

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég upplýsti forsætisráðherra um málið í lok júlí og taldi rétt að gera það á þeim tímapunkti,“ segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is en hún upplýsti Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um það að faðir hans, Benedikt Sveinsson, hefði veitt Hjalta Sigurjóni Haukssyni, sem hlotið hafði fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni, meðmæli þegar sá síðarnefndi sótti um uppreist æru á síðasta ári.

Sigríður segir að hún hafi upplýst Bjarna samdægurs um málið eftir að hafa sjálf fengið upplýsingarnar frá embættismönnum innan dómsmálaráðuneytisins í óspurðum fréttum. Hún hafi hins vegar ekki hafa upplýst aðra um málið. Sigríður vísar því á bug að sem komið hefur fram í fréttum að dómsmálaráðuneytið hafi reynt að leyna gögnum í málinu. Ljóst hafi þótt að í gögnunum væru að finna ýmsar upplýsingar sem ekki væri heimilt að gera opinberar og því hafi verið farin sú leið að fá úrskurð úrskurðarnefndar upplýsingamála.

„Óskað var eftir gögnum um Robert Downey í júlí og við töldum vissara að úrskurðarnefnd upplýsingamála myndi fjalla um þá beiðni þar sem við töldum okkur ekki stætt á að afhenda allar þær upplýsingar sem þarna væri að finna. Úrskurðarnefndin tók undir þessi sjónarmið að nokkru leyti og úrskurðaði að það ætti að afhenda þessi gögn en með ákveðnum takmörkunum. Við höfum síðan birt gögn í samræmi við það.“

Sigríður segir að í raun hafi ekki verið óskað eftir öðrum gögnum fyrr en nýlega og síðan hafi sumir fjölmiðlar óskað eftuir öllum gögnum. Unnið hafi verið að því í dómsmálaráðuneytinu að taka þessi gögn saman aftur til ársins 1995 þar sem tekið er mið af úrskurðu úrskurðarnefndar upplýsingamála og stendur til að birta þær á næstu dögum. Nokkrir starfsmenn hafa verið settir í það eina verkefni að sinna þessu.

„Við viljum afhenda þetta allt saman en í samræmi við þennan úrskurð. Og það er gríðarleg vinna,“ segir Sigríður. Úrskurðurinn nær þó aðeins til einnar umsóknar en er til leiðbeningar varðandi önnur hliðstæð mál. Dómsmálaráðherra leggur þó áherslu á að hvert mál sé sérstakt og upplýsingar mismunandi eftir málum. Upplýsingar sem úrskurðað hafi verið að skuli fara leynt geti til að mynda snúið að heilsufari umsækjenda.

„Það er ekki hægt í einu vetvangi að birta þessar upplýsingar. Það þarf að fara yfir þetta og það tekur tíma. Ég hef óskað eftir því að þetta sé sett í forgang í ráðuneytinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert