„Það geta ekki allir keypt Teslur“

Sigurður Ingi Jóhannson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Golli

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði fjármála- og efnahagsráðherra í fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið hvort skattur upp á tæpa fjóra milljarða sem felur meðal annars í sér hækkun á eldsneytisgjöldum eigi að slá á þenslu og tryggja stöðugleikann í landinu.

„Ég veit að þingmaður er sammála mér um að það er mikilvægt að varðveita þann góða árangur sem náðst hefur. Með þessi ákveðnu gjöld lít ég svo á að þarna séum við fyrst og fremst að bregðast við loftslagsbreytingum,” svaraði Benedikt Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Við erum að reyna að ná sem allra fyrst markmiðum okkar að hér verði innlendir orkugjafar meginorkugjafar í ökutækjum og vonandi líka í öðrum samgöngum, til dæmis í skipum í náinni framtíð. Það er markmiðið fremur en tekjuöflun.“

Benedikt Jóhannesson á Alþingi í morgun.
Benedikt Jóhannesson á Alþingi í morgun. Ljósmynd/Skjáskot

Sigurður Ingi sagði þá að hækkunin muni leiða til þess að verðtryggðar skuldir almennings muni hækka. „Það geta ekki allir keypt Teslur og keyrt 400 kílómetra á rafmagni.“

Benedikt svaraði honum þannig að í jöfnunni gleymist að á sama tíma veiti stjórnvöld ívilnanir til kaupa á bæði tvinn- og rafknúnum bílum. Einnig sé stöðugt verið að byggja upp hleðslustöðvar. Hann tók fram að tæknin sé dýrari núna en hún muni verða í framtíðinni, auk þess sem bílar eigi eftir að verða langdrægari. „Við erum að reyna að stíga skref inn í hreinni framtíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert