18 kosningar hafa farið fram frá fæðingu nýrra kjósenda

Frá árinu 1999 hafa 18 kosningar farið fram á Íslandi
Frá árinu 1999 hafa 18 kosningar farið fram á Íslandi Ómar Óskarsson

Í ár öðlast þeir sem fæddust árið 1999 kosningarétt en alls hafa 18 kosningar farið fram hér á landi frá því að þeir kjósendur fæddust. Þar af eru sjö Alþingiskosningar, fjórar sveitarstjórnarkosningar, þrjár forsetakosningar og þrjár þjóðaratkvæðagreiðslur. Auk þess fóru fram kosningar til stjórnlagaþings árið 2010.

Árin 2015, 2005, 2001 og 2000 fóru engar kosningar fram en árið 2000 var Ólafur Ragnar Grímsson sjálfkjörinn forseti. Þrisvar á síðastliðnum 18 árum hafa aftur á móti farið fram tvær eða fleiri kosningar á ári en það var árin 2016, 2012 og 2010. Í fyrra var gengið til forsetakosninga og Alþingiskosninga sama árið, 2012 var gengið til forsetakosningar og kosið um tillögur stjórnlagaráðs sama árið og 2010 fóru fram sveitastjórnarkosningar auk þess sem kosið var um ríkisábyrgð vegna Icesave í fyrra skiptið og til stjórnlagaþings. 

Frá stofnun lýðveldisins hafa farið fram 56 kosningar farið fram hér á landi og því hafa um 30% kosninga farið fram eftir aldamótin.

Því hefur verið lýst yfir að gegnið verði til Alþingiskosninga í nóvember, en það mun að öllum líkindum skýrast frekar um helgina hvenær verður kosið. Verði gengið til kosninga í ár verða þær Alþingiskosningar þær sjöundu á þeim 18 árum sem liðin eru frá fæðingu þeirra sem öðlast kosningarétt í ár og þær 23 frá stofnun lýðveldisins. 

Alls hafa farið fram 18 sveitarstjórnarkosningar frá stofnun lýðveldisins en þær hafa ávallt farið fram á fjögurra ára fresti líkt og lög gera ráð fyrir. Sveitastjórnarkosningarnar í vor verða þær 19 frá stofnun lýðveldisins. 

Átta sinnum hefur verið gengið til forsetakosninga en sex sinnum hefur sitjandi forseti verið sjálfkjörinn þar sem hann hefur ekki fengið mótframboð.

Alls hafa Íslendingar fjórum sinnum gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu frá stofnun lýðveldisins. Árið 1944 var í einni þjóðaratkvæðagreiðslu kosið um afnám sambandslaganna og setningu nýrrar stjórnarskrár en árin 2010 og 2011 var kosið um ríkisábyrgð vegna Icesave. Þá fóru fram kosningar til stjórnlagaþings í nóvember 2010 en Hæstiréttur ógilti kosninguna með ákvörðun í janúar 2011. Árið 2012 var síðan kosið um að tillögur stjórnlagaráðs yrðu grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert