Fréttastofa RÚV beri ein ábyrgð

Eining-Iðja segir Rúv eiga að axla ábyrgð vegna myndbirtingar í …
Eining-Iðja segir Rúv eiga að axla ábyrgð vegna myndbirtingar í tengslum við rannsókn á veitingastaðnum Sjanghæ. mbl.is/Eggert

Nafn- og myndbirtingar áður en sekt er sönnuð eru í öllum tilvikum á ábyrgð þess sem setur þær fram. Þetta segir í yfirlýsingu frá stéttarfélaginu Einingu-Iðju þar sem fram kemur að fréttastofa RÚV þurfi ein að axla ábyrgð á því að hafa birt mynd af veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri í umfjöllun sinni um grun á mansali.

Myndbirting ábyrgð stofnunarinnar í heild sinni

„Það að fréttamaður Ríkisútvarpsins kaus að flytja frétt af meintu mansali með því að birta mynd af veitingastaðnum, og þar með nafn hans, er að öllu leyti hans ákvörðun og þar með á hans ábyrgð, yfirmanna hans og stofnunarinnar í heild sinni.“

Fram kemur í yfirlýsingunni að stéttarfélagið Eining-Iðja fái á hverju ári margar ábendingar varðandi starfsemi félaga á félagssvæði þess. Þær ábendingar fari svo í ákveðið ferli sem er samkvæmt lögum og reglum. Sé ábending þess eðlis að um lögbrot gæti verið að ræða og ástæða til þess að krefjast gagna er það ávallt tilkynnt til lögreglu.

Ábendingin átti ekki við rök að styðjast 

„Lykilhugtak í öllum slíkum málum er grunur. Eina markmið stéttarfélagsins er að leiða það fram hvort grunur um misferli eigi við rök að styðjast Gengið er út frá því við vinnslu mála af þessu tagi að þeir aðilar sem málin varða séu saklausir, þangað til annað kemur í ljós.“

Rannsókn málsins leiddi svo í ljós að í tilfelli veingastaðarins Sjanghæ átti ábendingin ekki við rök að styðjast. Niðurstöður skoðunar á máli starfsmanna sýndu að þeir fá greitt samkvæmt kjarasamningum. 

Fréttastofan ein ber ábyrgð

Í frétt RÚV frá því í gær vegna málsins er tekið fram að fréttastofan ein beri ábyrgð á fréttinni og framsetningu hennar. Þá kemur fram að að þær upplýsingar sem komu fram í fréttinni um málið hafi komið frá traustum heimildum innan verkalýðshreyfingarinnar. Samkvæmt frétt RÚV hafi þessar upplýsingar einnig verið staðfestar af verkefnisstjóra vinnustaðaeftirlits Einingar-Iðju.

mbl.is