Helgi Hrafn hyggst gefa kost á sér

Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég gef kost á mér í framboði fyrir Pírata í komandi alþingiskosningum,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, á Pírataspjallinu á Facebook í kjölfar þess að Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður flokksins, skoraði á hann að gera það.

„Ég er í fáránlegri forréttindastöðu. Ekki bara hef ég prófað að fara í framboð, og fyrir röð samverkandi, ólíklegra atburða, náð kjöri, heldur einnig prófað að vera fyrrverandi þingmaður að eigin frumkvæði. Það var ein mikilvægasta ákvörðun sem ég hef tekið og ég sé ekki eftir henni í eina sekúndu; hún var rétt og gaf mér tækifæri til að sjá þetta allt saman í nýju og betra ljósi,“ segir Helgi Hrafn ennfremur og bætir við:

„Það sem mér finnst fallegast að sjá við Pírata er þegar nýtt fólk kemur inn í starfið og slær í gegn. Við erum ekki lengur háð fólki eins og mér, eða þeim sem náðu kjöri fyrst, jafnvel þótt við getum hjálpað. Ég hef fylgst með nýja þingfólkinu okkar og æpi og klappa eins og vitleysingur fyrir framan Alþingisvefinn við hverja ræðuna á fætur annarri, fólki hvers tilvist ég vissi ekki af fyrr en það var allt í einu komið í lykilstöður fyrir flokkinn og strax farið að standa sig betur en maður þorði að ímynda sér. Það er ekkert í okkar starfi sem hefur glatt mig meira en að sjá nýja fólkið okkar að verki.“

Helgi segist nú vera að svara kalli þeirra sem hvatt hafi hann til þess að bjóða sig fram aftur. Hins vegar vilji hann minna Pírata á að velgengni flokksins standi og falli með möguleikum nýs fólks. „Ég vil þakka ykkur öllum sem tekið þátt í þessu á einum eða öðrum tímapunkti og hlakka til að eyða allri þessari orku og öllum þessum tíma í allan þennan góða málstað.“

Helgi Hrafn var fyrst kjörinn á þing í þingkosningunum 2013 og hafði ætlað að gefa áfram kost á sér næsta kjörtímabil á eftir en hætti við það í kjölfar átaka innan Pírata, og þá einkum þingflokksins, sem hann líkti við veru í ofbeldissambandi þar sem ekki væri hægt að ræða neitt af ótta við afleiðingarnar.

mbl.is