Ráðuneytin verði ekki „höfuðlaus“

Óttarr Proppé ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í dag.
Óttarr Proppé ræðir við fjölmiðla á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Forsetinn hefur farið fram á það að við tökum þátt í starfsstjórn, sitjum hér samkvæmt stjórnskipulegri reglu eða venju. Ég reikna með því að við gerum það og öxlum ábyrgð á því að okkar ráðuneyti verði ekki höfuðlaus fram að því að ný ríkisstjórn er mynduð,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, að loknum fundi sínum með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands á Bessastöðum í dag.

Það var flokkur Óttars sem tók ákvörðun um að hætta ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn seint á fimmtudagskvöldið. Óttarr kveðst ganga óhræddur til kosninga en viðurkennir að staðan sé nokkuð undarleg.

„Miðað við söguna þá er saga flokksins upp og niður og fram og til baka, við erum alla veganna ánægð með okkur sjálf, þó svo að við höfum verið í skrítinni stöðu að slíta ríkisstjórn þá gerðum við það á prinsippum Bjartrar framtíðar og okkur finnst það mikilvægt,“ segir Óttarr.

„Skrítin tilhugsun“ að starfa aftur með Sjálfstæðisflokknum

Hann segir það vera skrítna tilfinningu að sitja í starfsstjórn eftir að hafa slitið stjórnarsamstarfinu en hann og Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra muni þó gera það að beiðni forseta lýðveldisins.

„Það er dálítið skrítin tilfinning að sitja í starfsstjórn eftir að hafa gert tilraun til þess að láta ríkisstjórnarsamstarf ganga upp við erfiðar aðstæður en við Björt eigum það sameiginlegt að við höfum haft mjög gaman og mikið gagn af því að sitja í okkar embættum,“ segir Óttarr. „Við gerum það að beiðni forseta íslands að halda stjórnskipulega hefð og ég er bara sammála forsetanum með það að það sé skylda okkar.“

Spurður hvort til greina komi að starfa aftur með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn að kosningum loknum segir Óttarr erfitt að hugsa til þess að svo stöddu.

„Ég get ekki sagt annað en alla veganna í dag að þá er það dálítið skrítin tilhugsun eftir að hafa slitið stjórnarsamstarfi af prinsipp ástæðum fyrir stuttum tíma. Það er alla veganna allt of snemmt að sjá eitthvað svoleiðis fyrir,“ sagði Óttarr.

mbl.is

Bloggað um fréttina