„Stjórnmál eru í eðli sínu svolítið ógeðsleg“

Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Rósa Braga

Helgi Hrafn Gunnarsson hefur ákveðið að gefa kost á sér til Alþingiskosninga en hann tilkynnti um það í facebook hóp Pírata í morgun. Helgi Hrafn var Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður frá 2013 til 2016 og formaður þingflokks frá 2014 til 2015. Þá var hann formaður Pírata frá 2015 til 2016. 

Á síðasta ári skapaðist talsverð umræða um ummæli Helga þegar hann lýsti sambandinu við stjórn Pírata við ofbeldissamband. Aðspurður út í þau ummæli og hvað hefði breyst segist Helgi Hrafn ánægður með þá ákvörðun sína að hafa ekki gefið kost á sér í síðustu Alþingiskosningum. „Stjórnmál eru í eðli sínu svolítið ógeðsleg, ekkert bara innan Pírata heldur alment. Píratar eru kannski opinskárri með það en það tekur tíma og reynslu að læra uppbyggileg samskipti í þessu umhverfi, þetta er svo hrikalega óhollt umhverfi,“ segir Helgi. 

„Það er svo margt sem maður sér sem maður hefði getað gert öðruvísi, sérstaklega í samskiptum og forgangsröðun. Það er alveg tvímælalaust. Fólk mun auðvitað skiptast á skoðunum, það eru alltaf átök í stjórnmálum og það er eðlilegt enda á allt fólk sem gefur kost á sér í stjórnmálastörf það sameiginlegt að þau eru að sækjast eftir stöðu til að taka ákvarðanir. Þannig að þegar það á að taka ákvarðanri og fólk er ekki sammála geta auðvitað orðið átök, þetta er fólkið í samfélaginu sem lætur sig málin varða og það jafnvel persónulega. “

Frétt mbl.is: Samskiptin eins og í ofbeldissambandi

Hefði farið fram óháð ákvörðun Birgittu

Aðspurður segir hann ákvörðunina hafa verið flókna en vel ígrundaða og að hann hefði gefið kost á sér óháð því hvort að Birgitta Jónsdóttir hefði gefið kost á sér. „Ég ákvað þetta áður en Birgitta skýrði frá því að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér áfram. Þetta var mjög flókin ákvörðun og þrátt fyrir að ég hafi ekki verið lengi að ákveða mig í dögum talið þá átti þetta allan minn hug í gær. Ég talaði við fólk sem er mér náið og fólk hvers skoðanir ég met mikils. Þetta er vel úthugsuð ákvörðun,“ segir Helgi. 

Aðspurður um síðastliðið ár frá því að Helgi lét af þingstörfum segist hann fyrst og fremst hafa verið að forrita. „Ég keypti fyrirtækið Fossbúinn af móður minni og hef verið að koma upp sjálfstæðum rekstri við forritun auk þess sem ég hef unnið forritunarstörf fyrir Pírata. Þar fyrir utan hef ég verið að kenna íslensku sem annað mál hjá hinni háæruverðugu stofnun Múltí kúltí.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert