„Stjórnum ekki aðstæðum frekar en aðrir“

Gunnar Smári Egilsson á stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands.
Gunnar Smári Egilsson á stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Við eru bara að skoða málin þessa dagana. Við hefðum ekki valið þessa tímasetningu. Við ætluðum bara að taka okkur tíma í að byggja upp hreyfingu og sjá svo til í framhaldi af því með mögulegt framboð. En við auðvitað, ekki frekar en aðrir, stjórnum ekki alltaf aðstæðunum þannig að við verðum bara að bregðast við þeim.“

Þetta segir Gunnar Smári Egilsson, formaður bráðabirgðastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, spurður hvort flokkurinn ætli að bjóða fram í þingkosningunum sem allt bendir til að boðað verði til á næstunni. Gunnar segir Sósíalistaflokkinn eðlilega vilja hafa áhrif á umræðuna þannig að hún snúist sem mest um réttindi og lífsgjör láglaunafólks, lífeyrisþega og þeirra sem orðið hafi undir í kerfinu og snúist ekki bara um vinnubrögð á Alþingi og stjórnmálamenninguna. 

„Það væri sorglegt að slík kosningabarátta færi fram án þess að við gætum haft áhrif á hana. Þannig að hún snúist um þau mál sem okkur þykja brenna á alþýðu manna. Við hins vegar reiknuðum ekki með þessum kosningum, við lögðum af stað í það verkefni að byggja flokkinn. Móta stefnuna með aðkomu flokksmanna og byggja upp hópa sósíalista úti í hverfunum. Við erum varla hálfnuð í þeirri vinnu og munum ekki ná að klára hana fyrir kosningar,“ segir Gunnar Smári enn fremur.

Metið verði á næstu dögum hvað gert verður. Hvort Sósíalistaflokkurinn haldi sínu striki varðandi uppbyggingu flokksins og látið þessa kosningar sigla fram hjá sér eða fari í þá vinnu sem nauðsynleg sé til þess að geta tekið þátt í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert