„Hef aldrei fundið fyrir neinu svona sterku“

Björgunarsveitarmenn, slökkvilið, lögregla og her vinna að því að bjarga …
Björgunarsveitarmenn, slökkvilið, lögregla og her vinna að því að bjarga fólki úr rústum húsa sem hrundu í Mexíkóborg. AFP

Elín Emilsson Ingvarsdóttir, sem er búsett í Mexíkóborg, segir jarðskjálftann í kvöld hafa verið hryllilega upplifun. Vitað er til að rúmlega 100 manns hafi látið lífið í jarðskjálftanum sem mældist 7,1, fjöldi húsa hrundi til grunna og vinna björgunarsveitir nú í kappi við tímann að ná fólki úr rústunum.

Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka frekar.

Skjálft­inn varð um 8 km suðaust­ur af Atenc­ingo, í Pu­ebla-fylki sem er ná­granna­fylki höfuðborg­ar­inn­ar og á 51 km dýpi.

32 ár eru í dag frá því að jarðskjálfti upp á 8 varð í nágrenni Mexíkóborgar, sem kostaði 5.000 manns lífið og eyðilagði 100.000 bygg­ing­ar.

„Ég hef aldrei fundið fyrir neinu svona sterku,“  segir Elín sem var búsett í borginni fyrir 32 árum þegar stóri skjálftinn reið yfir.

Elín Emilsson Ingvarsdóttir.
Elín Emilsson Ingvarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Í lagi með Íslendingana sem hún þekkir

Elín þekkir fimm Íslendinga sem eru búsettir eru í borginni og segir hún vera lagi með þau öll, þó þau séu vissulega öll í áfalli. „Þetta var líka hryllilegt.“

„Þetta var miklu sterkara en ég hef fundið fyrir áður,“ segir hún og kveður mexíkóska fjölmiðla segja jarðskjálftabylgjurnar hafa verið aðrar en í skjálftanum 7. september sem kostaði 98 manns lífið. „Sá skjálftinn var sterkari, en hann fannst ekki jafn vel í Mexíkóborg. Mér skilst að það hafi líka verið bylgjuskjálfti.“

Hvarflaði að mér að byggingin myndi hrynja

 „Ég vinn á þriðju hæð og sú hugsun hvarflaði að mér að byggingin myndi hrynja, þó að hún sé mjög sterkbyggð,“ segir Elín sem starfar í kennaraháskóla í borginni.

Fólk þusti út á götur borgarinnar þegar skjálftans varð vart, en hún segir þó ekki hafa gætt neins óðagots. Ákveðnir starfsmenn á vinnustöðum fái þjálfun í hvernig eigi að bregðast við jarðskjálftum og þeir sjái um að leiðbeina hinum. „Þetta var ekki eins og í bandarískri kvikmynd þar sem ríkir algjör ringulreið, heldur var þetta eiginlega mjög vel skipulegt.“

Elín býr í suðurhluta borgarinnar og var komin heim til sín þegar mbl.is náði sambandi við hana. Hún segir engar skemmdir vera sýnilegar í sínu næsta nágrenni. „Við erum líka sem betur fer á frekar góðu svæði.“

Heyrir í sírenunum

„Mér skilst að 54 byggingar hafi hrunið í Mexíkóborg og síðustu tölur sem ég heyrði voru að 119 manns hafi látið lífið. Við erum að fylgjast með fréttum af skjálftanum í sjónvarpinu og fáum fréttir af björgunarsveitum sem eru nú á fullu við  reyna að grafa fólk úr rústunum.“ Elín segir lífið í borginni hafa stöðvast við skjálftann og fólk er beðið um að halda sig heima við.

„Ég heyri í sírenum og það er verið að reyna að halda götunum auðum svo björgunarsveitir og slökkvilið komist sinna leiða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert