Austurbæjarbíó gluggi fyrir ferðamenn

Austurbæjarbíó hefur fengið nýtt hlutverk.
Austurbæjarbíó hefur fengið nýtt hlutverk. Ljósmynd/Aðsend

Gamla Austurbæjarbíó fékk í dag nýtt hlutverk sem gluggi fyrir erlenda ferðamenn inn í íslenska sögu, náttúru og samfélag en í morgun opnaði formlega sýningin „Tales from Iceland“ í þessu sögufræga húsi við Snorrabraut, sem þar með öðlast nýtt hlutverk. 

„Það sem mér finnst einna skemmtilegast við þetta er að það sé búið sé að finna hentugt hlutverk fyrir þetta sögufræga hús sem Austurbæjarbíó er, það hefur verið í svolitlu ströggli undanfarin ár en núna er búið að endurbyggja allt og setja upp mjög skemmtilega og áhugaverða sýningu,“ segir Jón Gunnar Bergs, framkvæmdastjóri Tales from Iceland. 

Jón Gunnar segir sýningarnar ekki einungis ætlaðar ferðamönnum. „Báðar sýningarnar eiga fullt erindi við Íslendinga jafnt og ferðamenn enda sýna þær annars vegar land og þjóð frá sjónarhóli ferðamanna og hins vegar valda hápunkta úr nútímasögu Íslands á nútímalegu formi. Þetta er svolítið eins og Snapchat þannig að yfirferðin yfir söguna er hröð og hentar þar af leiðandi ungum jafnt sem öldnum. Það verður frítt á sýninguna hjá okkur út mánuðinn, fólk þarf bara að skrá sig á heimasíðunni okkar, tales.is, og fær þá aðgöngumiða frítt en við byrjum að rukka inn 2. október.“

Sýningin byggir á fjölmörgum þriggja til fjögurra mínútna kvikmyndum sem hver segir sína sögu af landi og þjóð en myndirnar eru sýndar á 14 risaskjám sem komið hefur verið fyrir á tveimur hæðum. Í fyrstu verður sýningin með ensku tali og texta en unnið er að því að bjóða upp á fleiri tungumál. 

Í ár eru 70 ár liðin frá vígslu Austurbæjarbíós.
Í ár eru 70 ár liðin frá vígslu Austurbæjarbíós. Ljósmynd/Aðsend

Á neðri hæðinni er landslagssýningin „Nature explored by visitors“. Allar myndirnar eru unnar úr upptökum ferðamanna sem hafa gefið leyfi fyrir notkuninni en myndskeiðin bregða ljósi á hvernig landið og eyjarskeggjarnir koma þeim fyrir sjónir, hvernig þeir upplifðu náttúruna og fólkið sem hér býr. Á eftir hæðinni er fréttasýningin „Breaking news from the past“ en þær myndir eru unnar úr fréttamyndum sem koma að mestu leyti frá Ríkissjónvarpinu og sýna valda viðburði úr nútímasögu landsins. Fjallað er um listir, íþróttir utanríkismál, veðurfar, hafið, tónlist og ýmislegt fleira sem vekur áhuga ferðamanna. 

Að sýningunni stendur hópur kvikmyndagerðarmanna sem unnið hefur að sýningunni í rúmlega fjögur ár. Fyrir ári var gerður langtímaleigusamningur um húsnæðið og hefur verið unnið að endurnýjun þess í allt sumar. 

„Okkar von er að þetta renni einni stoðinni undir þá uppbyggingu sem á sér stað í austurhluta miðbæjarins, við erum rétt hjá Hlemmi þar sem Mathöllin opnaði nýlega og þetta bætir við fjölbreytni í þessum hluta borgarinnar. Hér verður líf og fjör og við ætlum að leiga húsið út fyrir lokaðar móttökur utan hefðbundins opnunartíma,“ segir Jón Gunnar.

Sýningin byggir á stuttum kvikmyndum sem segja sögu af landi …
Sýningin byggir á stuttum kvikmyndum sem segja sögu af landi og þjóð en 14 risaskjám hefur verið komið fyrir í Austurbæjarbíói. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert