Sigríður: Fölsuð skjöl eru lögreglumál

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Komist menn að því að undirritun hafi verið fölsuð er það auðvitað bara lögreglumál,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. Hún ræddi þar reglur og framkvæmd þeirra um uppreista æru.

Þetta er í annað sinn sem Sigríður ræðir málefnið við nefndina en eins og mbl.is greindi frá í morgun var nýr formaður kjörinn; Jón Steindór Valdimarsson. Það liggur því fyrir að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki formaður lengur.

Í fréttum hefur komið fram að tveir umsagnaraðilar barnaníðingsins Hjalta Sigurjóns Haukssonar segjast hafa verið blekktir. Þeir hafi skrifað undir umsögn um Hjalta vegna leitar hans að nýrri vinnu. Þeir segjast ekki hafa vitað að til stæði að nota umsögnina til umsóknar um uppreista æru. Hjalti sjálfur hefur vísað þessu á bug.

Dómsmálaráðherra á fundinum í morgun.
Dómsmálaráðherra á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert

Þyrfti dóm til

Sigríður ræddi á fundinum í morgun um hvað gera skyldi ef umsagnir um dæmda menn, sem bárust ráðuneytinu, væru falsaðar. Hún sagðist hafa rætt málið við sérfræðinga í ráðuneytinu. „Það liggur fyrir að ef skjöl sem eiga að undirbyggja afgreiðslu mála í ráðuneytinu eru ekki sannleikanum samkvæm þá er ákvörðunin röng líka,“ sagði Sigríður. Hún nefndi þó að ekki væri hlaupið að því að afturkalla stjórnvaldsaðgerð sem þessa og að líklega þyrfti staðfestingu dóms á því hvort skjölin væru röng.

„Það er ekki hlaupið að því að afturkalla þetta af því að einhver kannast ekki við undirskrift sína.“ Hún sagði að að sjálfsögðu þyrfti að skoða þetta nánar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert