Tryggjum að trampólín takist ekki á loft

Haustlægðir nálgast landið sem þýðir að trampólín eiga að fara …
Haustlægðir nálgast landið sem þýðir að trampólín eiga að fara í geymslu fljótlega. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Von er á tveimur haustlægðum til landsins í vikunni en sú fyrri kemur á morgun. Veðurfræðingur hvetur fólk til þess að tryggja að trampólín takist ekki á loft í seinni haustlægðinni sem væntanleg er á laugardag.

„Tíðin virðist ætla að verða rysjótt þessa vikuna, enda sækja hinar svokölluðu haustlægðir nú að okkur. Við fáum sennilega tvær slíkar þessa vikuna. Sú fyrri kemur á morgun og verður með mestu lætin suðaustanlands. Sú síðari bankar svo upp á á laugardaginn og gæti orðið öllu aflmeiri.

Það er því vissara fyrir okkur öll að huga að nærumhverfinu og koma í veg fyrir óþarfa tjón. Tryggjum að trampólínið takist ekki á loft og komum garðhúsgögnunum í var svo við getum notið þeirra næsta sumar,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar verður átakalítið veður í dag en í nótt mun hvessa á landinu og fara að rigna. Suðaustanlands verður sérstaklega hvasst á morgun þar sem vindur stendur af fjöllum. Gæti meðalvindur á slíkum stöðum náð 25 m/s og hviður 35-40 m/s. Einnig mun rigna talsvert á Suðausturlandi og Austfjörðum á morgun.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Suðlæg átt, víða 3-8 m/s. Bjart veður á köflum á norðausturhorninu, rigning suðaustanlands í fyrstu, annars skúrir. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast NA-lands.
Vaxandi austlæg átt í nótt, víða 10-18 í fyrramálið og rigning á köflum, en allt að 25 m/s suðaustanlands og talsverð rigning. Snýst í suðaustan 10-18 annað kvöld og styttir upp norðanlands.

Á miðvikudag:
Austlæg átt, víða 10-18 m/s og rigning, en talsverð rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast suðvestanlands. 

Á fimmtudag og föstudag:
Suðaustan og austan kaldi eða strekkingur og rigning á köflum, en bjartviðri að mestu norðan- og norðaustanlands. Hiti 8 til 14 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á laugardag:
Útlit fyrir hvassa austlæga átt með rigningu um allt land, einkum þó suðaustan- og austanlands. Hiti 8 til 15 stig. 

Á sunnudag og mánudag:
Suðlæg átt og skúrir, en léttskýjað og þurrt á norðausturhorninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert