Fjórir af 79 fá ekki sanngirnisbætur

Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar …
Kvennadeild Kópavogshælis var reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. Karladeildin sem reist var um 1950 var í sams konar byggingu vestan við kvennadeildina. Karladeildin var rifin fyrir nokkrum árum og rústirnar eru þaktar svartri möl. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjórir einstaklingar sem dvöldu á Kópavogshæli á árum áður fá ekki sanngirnisbætur vegna þeirrar slæmu meðferðar sem þeir sættu, þrátt fyrir að lögð hafi verið inn umsókn þess efnis.

Að sögn Halldórs Þormars Halldórssonar, umsjónarmanns sanngirnisbóta hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, uppfylltu þeir ekki skilyrðin sem eru þau að hafa verið vistaður sem barn á Kópavogshæli eða að vera á lífi.  

„Lögin eru þannig úr garði gerð að það er bara hægt að greiða bætur til þeirra sem voru vistaðir á meðan þeir voru á barnsaldri. Þetta er ákveðinn galli á lögunum en þau voru samin á sínum tíma til þess að uppfylla annað hlutverk. Þau henta ekki að öllu leyti Kópavogshæli þar sem voru vistuð börn og fullorðnir saman,“ greinir hann frá. 

Halldór Þormar vildi ekki gefa upp hversu margir af þessum fjórum sem fengu ekki sáttaboð eru enn á lífi en skyldmenni þess eða þeirra sem eru látnir sóttu um fyrir þeirra hönd.

Vistheimilanefnd greindi frá skýrslu sinni um Kópavogshæli í febrúar síðstliðnunm.
Vistheimilanefnd greindi frá skýrslu sinni um Kópavogshæli í febrúar síðstliðnunm. mbl.is/Golli

Tveir drógu umsóknina til baka

Tveir hafa jafnframt dregið til baka umsókn sína um bætur. Halldór Þormar kveðst ekki hafa skýringu á því hvers vegna þeir tóku þá ákvörðun.

Alls hafa 79 sótt um sanngirnisbætur en ekki 78 eins og stjórnvöld greindu upphaflega frá og sendi sýslumaður út sáttaboð til 75 einstaklinga.

Umsóknarfresturinn er opinn í tvö ár og því geta fleiri sótt um bætur. Samkvæmt upplýsingum Halldórs Þormars uppfylla 89 manns skilyrðin fyrir sanngirnisbótum að einhverju leyti. Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vistheimila, greindi frá því í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum að þeir sem ekki hafa enn sótt um hafi verið í skammtímavistun og því sé eðlilegt að þeir leggi ekki inn umsókn um bætur.

Haraldur Ólafsson er einn þeirra sem hafa sótt um sannirnisbætur. …
Haraldur Ólafsson er einn þeirra sem hafa sótt um sannirnisbætur. Hann var þriggja ára þegar hann var vistaður á Kópavogshæli sem átti eftir að vera heimili hans næstu 22 árin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrstu svörin þegar komin 

Halldór Þormar segist ekki vita annað en að bréfin um sáttaboð séu flest ef ekki öll komin á áfangastað. Fyrstu svörin eru jafnframt komin til baka til sýslumanns en samþykkja þarf sáttaboðið og senda bréf þess efnis til baka.

„Ef viðkomandi er ekki sáttur við fjárhæðina sem er í boði getur hann vísað því til úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur. Málsmeðferðin á bak við vinnu úrskurðarnefndarinnar er miklu flóknari,” segir hann og bendir á að sú vinna myndi taka nokkurn tíma.

Alls nema bæt­urn­ar um 460 millj­ón­um króna sem rík­is­stjórn­in hef­ur ákveðið að greiða út á næstu þrem­ur árum. Um helm­ing­ur fyrr­ver­andi vist­manna Kópa­vogs­hæl­is sem sótti um sann­girn­is­bæt­ur vegna meðferðar sinn­ar fær greidd­ar full­ar bæt­ur, eða 7,8 millj­ón­ir króna, vísi­tölu­tryggt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert