Hraunar yfir Viðreisn og Bjarta Framtíð

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir viðbrögð Viðreisnar vera sýnu verri en …
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir viðbrögð Viðreisnar vera sýnu verri en Bjartrar framtíðar. Eggert Jóhannesson

Sigríður Á. Anderssen, dómsmálaráðherra, lýsir því yfir á Facebook síðu sinni að skyndiákvörðun Bjartrar Framtíðar um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi vegna eðlilegs trúnaðarsamtals hennar og forsætisráðherra sé dæmi um fullkominn skort á þeirri yfirvegun og ábyrgð sem hún telur nauðsynlegt að allir æðstu embættismenn temji sér. 

Segir Sigríður viðbrögð Viðreisnar vera af sama toga, „en sýnu verri að því leyti að með þeim reyndu ráðherrar Viðreisnar að villa fyrir um almenningi með brigslum um leyndarhyggju og yfirhylmingu, ekki bara af minni hálfu og forsætisráðherra heldur einnig starfsmanna stjórnarráðsins,“ segir Sigríður í færslunni.

„Fréttir berast í dag af því að umboðsmaður Alþingis hafi kynnt þinginu þá skoðun sína að það hafi ekki verið um trúnaðarbrot að ræða af minni hálfu er ég ræddi í trúnaði við forsætisráðherra um afgreiðslu tiltekinnar umsóknar um uppreist æru frá síðasta ári.

Umboðsmaður lýsti því einnig að hann hafi ekki séð tilefni til þess að taka upp athugun á öðrum þáttum málsins. Ekkert af þessu kemur mér á óvart og ég get ekki annað en lýst ánægju minni með þessa niðurstöðu umboðsmanns.“

Viðbrögð Viðreisnar og Bjartrar framtíðar séu þó dæmi um fullkominn skort á þeirri yfirvegun og ábyrgð sem nauðsynlegt sé að allir æðstu embættismenn temji sér. 

„Þótt vika sé nú liðin frá þessu gönuhlaupi hafa ráðherrar Viðreisnar og Bjartar framtíðar ekki svo mikið sem eytt á mig einu símtali til að fara yfir málið. Jafnvel þó ekki væri til annars en að kynna sér hvernig sú vinna sem ég hóf í maí við endurskoðun laga um uppreist æru stendur,“ segir í færslu Sigríðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina