Ólíklegt að efni úr gervigrasi berist í notendur

Gervigrasvöllur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Gervigrasvöllur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Rax

Lítil hætta er talin á því að hættuleg efni berist í notendur gervigrasvalla í Kópavogi. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á átta gervigrasvöllum bæjarins og sem Kópavogsbær kynnti í dag.

Segir í fréttatilkynningu frá bænum að ekki hafi áður verið gerð jafnvíðtæk rannsókn á gervigrasvöllum hér á landi að því að vitað sé.

Kópavogsbær óskaði eftir ítarlegri rannsókn á áhættu við notkun gervigrasvalla, bæði valla utandyra og innanhúss. Ráðist var í heildarathugun á völlunum vegna umræðu um heilsuspillandi áhrif dekkjakurls. 

Átta vellir voru rannsakaðir, tveir innivellir (Fífan og Kórinn), fjórir sparkvellir eða battavellir (Kársnesskóli Vallagerði, Smáravöllur, Lindaskóli og Hörðuvallaskóli) og þá voru tveir útivellir rannsakaðir, við Kórinn og Fífuna.

Rannsóknin tók til þriggja hugsanlegra flutningsleiða efnanna sem athyglin hefur beinst að inn í líkamann; með lofti á innivöllum, með svita og úr meltingarvegi. 

„Niðurstöður rannsóknarinnar benda nokkuð eindregið til að lítil hætta sé á að hættuleg efni berist í notendur núverandi gervigrasvalla í Kópavogi með lofti, svita og hugsanlegri inntöku kurlsins,“ segir í skýrslunni og þess getið að þetta sé í samræmi við niðurstöður fjölda erlendra rannsókna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert