Dómarar ósamhljóða í fordæmisgefandi máli

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Heimilt er að ákæra menn fyrir meiri háttar skattalagabrot þó að þeir hafi áður sætt háu álagi ofan á vangoldna skatta. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars í fyrra. Þá var karlmaður, sem taldi ekki fram um 87 milljónir króna í fjármagnstekjur árin 2008 og 2009, sakfelldur og dæmdur til fangelsisvistar. Hann var einnig dæmdur til að greiða tæplega 14 milljónir króna í sekt.

Talið er að dómurinn sem féll í dag sé fordæmisgefandi og geti haft áhrif á fjölmörg mál sem héraðssaksóknari hefur til rannsóknar. Sjö hæstaréttardómarar dæmdu í málinu, en það er til vitnis um mikilvægi þess. Sex dómarar voru sammála í niðurstöðu sinni, að sakfella manninn, en einn dómari, Benedikt Bogason, vildi vísa málinu frá dómi.

Vísaði í mannréttindasáttmála

Maðurinn sem dæmdur var krafðist þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi á grundvelli mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um bann við endurtekinni málsmeðferð í sakamálum. Skattayfirvöld höfðu endurákvarðað skatta vegna tekjuáranna 2007 og 2008 og gert manninum að greiða skatt af álagi á vantalinn skattstofn. Hann vildi meina að rekin hefðu verið tvö aðskilin sakamál á hendur sér vegna sama brots.

Í stuttu máli féllst Hæstiréttur ekki á að rannsóknin hafi verið ónauðsynleg endurtekning fyrri málsmeðferðar, eins og það er orðað. Ekki hafi verið farið á svig við reglur um meðalhóf. Þá er tekið fram í dómnum að héraðsómur hafi tekið tillit til þess að maðurinn hefði sætt álagi á vantalinn skattstofn við ákvörðun sektarfjárhæðar.

Næstum hundrað mál í bið

Kjarninn greindi frá því fyrr í september að nálægt 100 málum hafi verið slegið á frest þar til niðurstaða í þessu máli lægi fyrir. Um væri að ræða mál sem biðu eftir að komast í rannsókn, mál sem búið væri að rannsaka og mál sem jafnvel væri búið að ákæra í.

Maðurinn hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir brot sín. Þá skal hann greiða 13,8 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, ella sæti hann fangelsi í sjö mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert