Stíga til baka og óska frekari gagna

Þórhildur Sunna segir fundinn með Tryggva hafa verið gagnlegan, en …
Þórhildur Sunna segir fundinn með Tryggva hafa verið gagnlegan, en ýmsar spurningar liggi þó eftir.

„Þetta var gagnlegur fundur með umboðsmanni Alþingis og svaraði mörgum spurningum. Samt sem áður liggja eftir spurningar sem við vildum gjarnan fá svör við. Hvort það er enn þá tilefni til formlegrar rannsóknar eigum við eftir að meta.“

Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis.

Tryggvi gerði nefnd­inni grein fyr­ir því að hann teldi ekki til­efni til þess að hefja frum­kvæðis­at­hug­un á embætt­is­færsl­um í tengsl­um við það þegar Sig­ríður And­er­sen dóms­málaráðherra upp­lýsti Bjarna Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra um að faðir hans, Bene­dikt Sveins­son, hefði skrifað und­ir meðmæli fyr­ir dæmd­an barn­aníðing þegar hann sótti um upp­reist æru.

Til stendur að nefndin fundi aftur í dag til að fara frekar yfir þær upplýsingar sem komu fram á fundinum með Tryggva. Gert er ráð fyrir að þar verði tekin ákvörðun um næstu skref í málinu.

Þórhildur segir Pírata einnig hafa óskað eftir því að fá fund aðeins síðar svo tími gefist til að taka saman spurningar og safna gagnabeiðnum. „Til þess að geta gert þetta á sem yfirvegaðastan hátt þá viljum við stíga aðeins til baka og skoða hvort það er enn þá tilefni til formlegrar rannsóknar. Við gerum það á grundvelli gagna sem við munum óska eftir úr dómsmálaráðuneytinu og mögulega frá öðrum stofnunum og ráðuneytum.“

Hún segir vert að hafa í huga að hlutverk þingmanna og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé annað en umboðsmanns Alþingis. „Við eigum enn þá eftir að meta, út frá því sem umboðsmaður sagði, hvort það sé tilefni til rannsóknar af okkar hálfu og ég ætla að fá að bíða með yfirlýsingar þangað til ég er búin að fá smá tíma til að meðtaka þetta og ræða við mitt fólk.

Jón Steindór Valdimarsson.
Jón Steindór Valdimarsson. mbl.is/Eggert

Jón Steindór Valdimarsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingmaður Viðreisnar, er sammála Þórhildi með að fundurinn hafi verið afar gagnlegur. Nefndin sé nú mun betur í stakk búin til að komast til botns í málinu. Engin ákvörðun hafi þó verið tekin um það hvort nefndin hefji formlega rannsókn á embættisfærslum ráðherranna.

Ráðgjafaráð Viðreisnar hefur engu að síður kallað eftir því að málið verði rannsakað og í yfirlýsingu sem ráðið sendi frá sér í síðustu viku segir meðal annars: „Upp­lýsa þarf að fullu um þá at­b­urðarás sem leiddi til þess trúnaðarbrests sem orðinn er,“ og er þar vísað til áðurnefndra samskipta dómsmálaráðherra og forsætisráðherra.

Jón Steindór segir að það að fá umboðsmann Alþingis á sinn fund sé þáttur í skoðun nefndarinnar á atburðarásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert