Þyngdi dóm vegna skilasvika

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur Íslands hefur þyngt dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir Ara Axel Jónssyni vegna brota hans sem eigandi og framkvæmdastjóri Dregg ehf. á Akureyri.

Hæstiréttur dæmdi Ara Axel í átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán mánuði skilorðsbundna. Honum var einnig gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eða rúmar 900 þúsund krónur.

Ari Axel var í héraðsdómi dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa árið 2011 sem eigandi og framkvæmdastjóri Dregg ehf. ráðstafað öllum vörubirgðum félagsins til Dregg Lagna ehf.,  sem var einnig í hans eigu, á þann hátt að ekki samrýmdist veðréttindum lánardrottins Dregg ehf. í vörubirgðum og fyrir óhæfilega lágt verð, þannig að það skerti rétt sama lánardrottins til að öðlast fullnægju af eignum félagsins.

Hann var einnig sakfelldur fyrir skilasvik með því að hafa sem fyrrverandi eigandi og stjórnarformaður Dregg ehf., sem þá hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta, ráðstafað flutningaskipi, sem var skráð eign annars félags í hans eigu, með þeim hætti að ekki samræmdist tryggingaréttindum Dregg efh. yfir skipinu.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar 18. ágúst í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert