Byggðar verði tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri

Heilsugæslustöðin á Akureyri er á fjórum hæðum þessa húss, Hafnarstrætis …
Heilsugæslustöðin á Akureyri er á fjórum hæðum þessa húss, Hafnarstrætis 99-101. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stefnt er að því að byggja tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri í stað núverandi húsnæðis heilsugæslunnar í miðbænum. Talið er æskilegt að byggja einnar hæðar hús og verði hvor eining um sig 1500 fermetrar að stærð. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nolta ehf. sem kynnt var á ársfundi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í dag. 

Gengið er út frá að núverandi húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri verði selt í aðdraganda þess að starfsemin flytjist í tvær nýjar stöðvar en þjónusta og starfsemi verði sambærileg á báðum stöðum.

Núverandi húsnæði óhentugt og aðgengi slæmt

Vinnuhópur skipaður starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands vann að úttektinni með
ráðgjafarfyrirtækinu Nolta ehf. og var í greiningarvinnu á núverandi húsnæði kallað eftir áliti allra starfsmanna heilsugæslunnar á Akureyri, auk þess sem tæplega 1000 notendur þjónustu hennar tóku þátt í viðhorfskönnun. Meðal helstu athugasemda sem fram komu var að núverandi húsnæði sé á of mörgum hæðum og ekki hannað fyrir nútíma heilsusgæslustarfsemi, aðgengi sé verulega ábótavant, lyfta mjög slæm og illa nothæf fyrir t.d. einstaklinga í hjólastólum. Einnig er bent á skort á bílastæðum og að húsnæði skorti
fyrir ýmsa þjónustuþætti og aðstöðu fyrir starfsfólk.

Þrír valkostir voru sérstaklega skoðaðir, þ.e. að byggja tvær nýjar heilsugæslustöðvar, að byggja eina stóra heilsugæslustöð eða skipta starfseminni upp í þrjár stöðvar í bænum. Bygging tveggja stöðva í bænum þykir best þjóna starfseminni til næstu framtíðar.

Þjónustan færð nær notendunum

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðistofnunar Norðurlands, segir skýrsluna mikilvægan áfanga í þróun heilsugæslunnar á Akureyri. 

„Með skýrslunni er mörkuð sú leið sem við viljum fara á komandi árum. Með þessu fyrirkomulagi getum við fært þjónustuna nær notendunum og bætt aðgengi þeirra á allan hátt. Við höfum verið að efla þjónustu heilsugæslunnar á Akureyri að undanförnu og núverandi húsnæði setur okkur verulegar skorður um frekari framþróun hennar. Þess vegna er knýjandi að fá úrbætur í húsnæðismálum heilsugæslunnar á Akureyri sem fyrst. Næsta skref er að tryggja fjármögnun til bygginganna en að hluta yrði verkefnið fjármagnað með sölu núverandi húsnæðis. Samhliða því munum við taka upp viðræður við Akureyrarbæ um hvaða valkostir eru bestir í staðsetningum fyrir tvær nýjar heilsugæslustöðvar í bænum,“ segir Jón Helgi Björnsson.

Mætir mannfjöldaþróun svæðisins

Heilsugæslan á Akureyri er nú til húsa á fjórum hæðum húss við göngugötuna, Hafnarstræti. Samtals er húsnæðið rétt tæplega 2000 fermetrar að stærð en auk þess er heimahjúkrun við Strandgötu, á 3. hæð í tæplega 200 fermetra rými.

Heilbrigðisþjónusta hefur verið til húsa í Hafnarstræti 99-101 frá árinu 1973 en þá byrjaði starfsemin með opnun læknastofa á 5. hæð. Á árinu 1985 voru sett ný lög sem skilgreindu þjónustu heimilislækna og aðra heilbrigðisþjónustu sem fyrstu heimsókn einstaklinga í heilbrigðiskerfinu og þannig varð heilsugæslan til. Því hefur þessi þjónustukjarni stækkað jafnt og þétt allt til dagsins í dag.

Íbúar á upptökusvæði heilsugæslunnar á Akureyri eru um 21 þúsund og samkvæmt spá um mannfjöldaþróun mun sá hópur verða 24.300 árið 2030. Í niðurstöðu skýrslunnar segir að tvær nýjar stöðvar muni mæta þessari þróun og sé þetta fyrirkomulag í takti við þá áherslu sem sé í nágrannalöndunum á minni heilsugæslustöðvar.

Inngangur í heilsugæslustöðina er einnig frá Gilsbakkavegi. Þaðan er gengið …
Inngangur í heilsugæslustöðina er einnig frá Gilsbakkavegi. Þaðan er gengið inn á efstu hæðina, en lítið um bílastæði þeim megin hússins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert