Auðvelt að vera sammála um frumvarpið

Óttarr Proppé.
Óttarr Proppé. mbl.is/Eggert

Frumvarp dómsmálaráðherra um afnám á uppreist æru var kynnt á fundi formanna flokkanna með forseta Alþingis í dag.

„Það frumvarp er í sjálfu sér mjög einfalt og er í takt við það sem hefur verið boðað í sumar og ég held að allir flokkar og flestir þingmenn hafi verið sammála um, þ.e.a.s. að leggja af reglur um að veita uppreist æru,“ sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra að loknum fundinum.

„En það er í sjálfu sér hálf leið því það er ekki tekið tillit til þess víða annars staðar í lögum. Það hefur verið talað um bandorm til þess að skýra það í öðrum lögum hvernig borgaraleg réttindi eru áunnin aftur. Það er skilið eftir en þetta í grunninn að leggja af reglur um uppreist æru, það er mál sem er tiltölulega auðvelt fyrir alla að vera sammála um,“ bætti hann við.

Frá upphafi fundarins.
Frá upphafi fundarins. mbl.is/Eggert

Meiri dýpt en áður

Næsti fundur formannanna hefur verið boðaður á mánudaginn næsta. Spurður út í hvernig fundurinn gekk sagði Óttarr: „Við erum í aðeins meiri dýpt. Það var ákveðið að fara aðeins með málin aftur inn í þingflokkana. Þingflokkarnir eru komnir dálítið út og suður bæði vegna yfirvofandi kosninga og kjördæmisþinga en við ætlum að heyra hljóðið í okkar þingmönnum um helgina og gerum ráð fyrir því að hittast aftur á mánudaginn,“ sagði hann og tók fram að engum málum hefði verið lokað á fundinum í dag.

„Þetta eru sömu mál og við erum búin að ræða á öllum þessum fundum. Það eru atriði þar sem menn eru að nálgast og önnur þar sem menn eru ekki að nálgast.“

mbl.is