Verða yfirheyrðir áfram í dag

Lögreglan á vettvangi morðs á Hagamelnum í gærkvöldi.
Lögreglan á vettvangi morðs á Hagamelnum í gærkvöldi. mbl.is/Golli

Tveir menn sem voru handteknir á vettvangi alvarlegrar líkamsárásar, sem leiddi til dauða konu, hafa verið yfirheyrðir í nótt og verða yfirheyrðir áfram í dag. Væntanlega verður farið fram á gæsluvarðhald síðar í dag, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tæknideild lögreglunnar hefur verið að störfum í alla nótt á vettvangi en mikill viðbúnaður var hjá lögreglu og tók sérsveitin þátt í aðgerðum á Hagamel í vesturbæ Reykjavíkur um tíuleytið í gærkvöldi. Tæknivinnu er ekki lokið, segir Grímur, en ekki er hægt að upplýsa nákvæmlega hvað gerðist en árásin var gerð á heimili konunnar. Annar þeirra sem eru í haldi lögreglu bjó á sama stað. Grímur segist ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu enda rannsókn í fullum gangi.

Sam­kvæmt ís­lensk­um lög­um hef­ur lög­regl­an heim­ild til að halda mönn­un­um í sól­ar­hring, en að þeim tíma lokn­um verður hún að fara fram á gæslu­v­arðhald eða láta þá lausa úr haldi. Eft­ir það hef­ur dóm­ari sól­ar­hring til viðbót­ar til að ákveða hvort hann fellst á gæslu­v­arðhalds­beiðnina.

Ekki er upplýst á þessari stundu hvort óskað verður eftir gæsluvarðhaldi yfir báðum mönnunum síðar í dag.

Uppfært klukkan átta

Í fréttum RÚV klukkan átta kom fram í máli Gríms að vísbendingar væru um að vopni hefði verið beitt við árásina. 

Þar kom einnig fram að konan og annar maðurinn eru af erlendu bergi brotin en hinn maðurinn er Íslendingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert