Stjórnvöld túlka Dyflinnarreglugerðina þröngt

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Kristjana Júlía Þorsteinsdóttir verðlaunahafi og Baldur Þórhallsson, forseti Stjórnmálafræðideildar. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Kristjana Júlía Þorsteinsdóttir fékk verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerð í alþjóðasamskiptum. Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, í samstarfi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, veittu henni verðlaun í dag. Ritgerðin ber heitið „Er hæli raunhæfur möguleiki? Túlkun íslenskra stjórnvalda á Dyflinnarreglugerðinni“. 

Eins og nafnið bendir til fjallar ritgerðin um túlkun og notkun íslenskra stjórnvalda á Dyflinnarreglugerðinni, sem gjarnan er vísað til þegar hælisleitendur eru sendir úr landi án efnislegrar meðferðar á umsókn þeirra hér á landi. Höfundurinn skoðar annars vegar tímabilið 2001-2003, þegar Dyflinnarreglugerðin var innleidd, og hins vegar 2014-2016, þegar mikil aukning hafði orðið á fjölda flóttafólks í Evrópu.

Niðurstöður Kristjönu Júlíu eru að túlkun íslenskra stjórnvalda á Dyflinnarreglugerðinni sé mjög þröng og þótt ítrekað hafi verið rætt á þingi að hún skapi heimild en ekki skyldu virðist hún oftast túlkuð sem regla.

Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, veitti verðlaunin á Háskólatorgi í dag að viðstöddum Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands. Þessi verðlaun sendinefndar ESB eru veitt í fyrsta sinn í ár og eru hugsuð til handa nemendum sem fjalla um Evrópumál og evrópskan samruna í víðu samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert