Brottvísun geti valdið óafturkræfu tjóni

Útlendingastofnun fer með öll málefni útlendinga á Íslandi.
Útlendingastofnun fer með öll málefni útlendinga á Íslandi. mbl/ Kristinn Ingvarsson

„Það er því alveg ljóst að öryggi og velferð fjölskyldunnar er hætta búin verði henni vísað frá Íslandi,“ segir Magnús Norðdahl, lögmaður fimm manna fjölskyldu frá Gana. Kærunefnd útlendingamála staðfesti í dag ákvörðun Útlendingastofnunar um að fjölskyldan skuli yfirgefa landið, þrátt fyrir að yfirlæknir á geðdeild Landspítalans telji að brottvísunin geti „valdið Mercy og fjölskyldu hennar óafturkræfu tjóni“.

Mercy Kyeremeh og drengjum hennar þremur, Godwin fimm ára, Emmanuele fjögurra ára og nýfæddu barni, var í dag gefinn 30 daga frestur til að yfirgefa landið. Magnús, sem hefur heimild til að tala máli fjölskyldunnar í fjölmiðlum, segir í skriflegu bréfi til mbl.is að staða fjölskyldunnar sé afar viðkvæm enda liggi fyrir gögn þess efnis að móðir barnanna sé í mikilli sjálfsvígshættu. Hún hafi fyrr á árinu verið lögð inn á geðdeild Landspítala þess vegna.

Við það tilefni mat yfirlæknir stöðu konunnar mjög slæma. „Þessi kona hefur mjög lítið félagslegt net, er munaðarleysingi sjálf og alin upp í fátækt. Er í sjálfsvígshættu núna eins og hennar staða er.“

Vilja ekki fara með börnin til Ítalíu

Annar sérfræðingur, sálfræðingur, metur líðan konunnar óstöðuga sökum kvíða og hún sé líklega í sjálfsvígshættu. Fram kemur að fjölskyldunni hugnist alls ekki að fara aftur til Ítalíu, þar sem þau hafi þurft að búa á götunni og betla til að sjá fyrir sér. Fram kemur að Mercy segist frekar vilja svipta sig lífi en að þurfa að fara með börnin sín aftur til Ítalíu. Barna hennar bíði betri framtíð ef einhver vilji taka þau að sér hér fremur en að hún fari með þau aftur til Ítalíu. Í matinu kemur fram að eldri börnin tvö séu farin að tala íslensku og séu á leikskóla.

Magnús Davíð Norðdahl er lögmaður fjölskyldunnar.
Magnús Davíð Norðdahl er lögmaður fjölskyldunnar. Ljósmynd/aðsent

Báðir foreldrar drengjanna eru í vinnu og þeim gengur að eigin sögn vel að framfleyta sér. Þau hafi bíl til umráða og íbúð. „Fjölskyldan sættir sig engan veginn við þessi málalok og mun lögmaður hennar Magnús Davíð Norðdahl krefjast frestunar réttaráhrifa og bera málið undir dómstóla,“ segir í bréfi Magnúsar til mbl.is.

Hann segir að sú niðurstaða að aðstæður Mercy nái ekki því „alvarleikastigi“ að fallast beri á veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé óskiljanleg í ljósi fyrirliggjandi vottorða um stöðu hennar. „Hér er um að ræða mjög matskennt atriði og hefðu nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála hæglega getað komist að öfugri niðurstöðu og veitt fjölskyldunni hæli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert