Fái að veiða 57 þúsund rjúpur yfir 12 daga

Rjúpnakarri. Náttúrufræðistofnun telur rjúpnastofnin þola að 57 þúsund fuglar verði …
Rjúpnakarri. Náttúrufræðistofnun telur rjúpnastofnin þola að 57 þúsund fuglar verði veiddir í ár. falkasetur.is

Rjúpnastofninn þolir að veiddar verði 57 þúsund rjúpur á þessu veiðitímabili samkvæmt tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Voru niðurstöðurnar kynntar umhverfis- og auðlindaráðherra í bréfi síðasta föstudag.

Tillaga stofnunarinnar gerir því ráð fyrir töluverðri hækkun frá síðasta ári, þegar lagt var til að veiða mætti 40.000 fugla.

„Stofnunin leggur áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar,“ segir í frétt á vef Náttúrustofnunar.

Var viðkoma rjúpunnar metin með talningum í tveimur landshlutum síðsumars og reyndist hlutfall unga vera 78% á Norðausturlandi og 79% á Suðvesturlandi. Benda niðurstöður þessara rjúpnatalninga til þess að stærð rjúpnastofnsins í ár sé í meðallagi víðast hvar um land, en þó ekki á Vestfjörðum og Suðausturlandi, þar sé stofninn í lágmarki.

„Reiknuð heildarstærð varpstofns rjúpu vorið 2017 var metin 173 þúsund fuglar, en var 132 þúsund fuglar 2016. Framreiknuð stærð veiðistofns 2017 er 649 þúsund fuglar miðað við 453 þúsund fugla 2016. Þessir útreikningar byggja á gögnum fyrir Norðausturland og ofmeta stærð stofnsins nær örugglega,“ segir í fréttinni.  

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákvað haustið 2013 að rjúpnaveiðitíminn yrði 12 dagar á ári fyrir tímabilið 2013–2015, þetta var síðan framlengt 2016. Leggur náttúrufræðistofnun til að þeim veiðitíma verði haldið óbreyttum þetta árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert