Gæsluvarðhald vegna gruns um peningaþvætti

Hæstiréttur íslands.
Hæstiréttur íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur staðfesti í dag að nígerískur karlmaður skuli áfram sæta gæsluvarðhaldi vegna gruns um peningaþvætti. Varnaraðili hafði kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur en þar segir að manninum sé gert að sæta gæsluvarðhaldi til 19. október.

Alls hefur héraðssaksóknari gefið út ákæru á hendur fjórum vegna málsins. 

Í greinargerð saksóknarfulltrúa kemur fram að maðurinn sé ákærður fyrir að hafa skipulagt og gefið fyrirmæli um peningaþvætti þegar meðákærðu hafi tekið við 31.600.000 krónum af ótilgreindum aðila, geymt fjármunina á bankareikningum, nýtt að hluta, flutt að hluta, sent að hluta til Ítalíu og millifært 20.500.000 krónur af umræddu fé á bankareikning félags í Hong Kong.

Þetta hafi verið gert þó vitað hafi verið mátt að um væri að ræða ólöglega fengið fé, en um hafi verið að ræða fé sem ótilgreindur aðili hafi komist yfir með fjársvikum í tengslum við viðskipti félaga í Suður-Kóreu og víðar.

Maðurinn kom til landsins í febrúar gagngert til þess að veita viðtöku hluta umræddra fjármuna og senda þá með símgreiðslu til félags í Hong Kong.

Ákærði var framseldur til Íslands frá Ítalíu og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 17. ágúst. Maðurinn er áfram í gæsluvarðhaldi vegna þess að saksóknari telur líklegt að annars myndi maðurinn reyna að komast úr landi. 

Dómurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert