Kennir túlkun tarotspila

Guðrún Tinna Thorlacius fer óhefðbundnar leiðir til að hjálpa fólki …
Guðrún Tinna Thorlacius fer óhefðbundnar leiðir til að hjálpa fólki og ein þeirra er að lesa í tarotspil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spinna örlaganornirnar örlög okkar eða höfum við sjálf eitthvað um framtíð okkar að segja? Guðrún Tinna Thorlacius, markþjálfi og hómópati, er ekki svo viss um að Urður, Verðandi og Skuld sitji sveittar saman að spinna örlög manna, en hún segir að ástæða sé fyrir öllum okkar ákvörðunum. Hún hefur því einsett sér að kenna fólki að setja sér markmið og læra að þekkja þá braut sem það er á og leiðrétta ef þörf reynist. Ein leið er að hennar sögn að nýta sér aðstoð svokallaðra tarotspila.

„Þetta er aldagömul aðferðafræði sem hjálpar fólki að átta sig á því hvert það stefnir,“ segir Guðrún Tinna, en hún tekur sérstaklega fram að hún sé ekki spákona.

„Það er ástæða fyrir öllu sem við gerum, líka hvaða spil við drögum. Þau segja okkur á hvaða braut við erum en ekki frá einhverju ófrávíkjanlegu. Við stjórnum framtíð okkar og getum breytt henni.“

Rétta spurningin

Spilin svara spurningum fólks, þ.e. ef rétta spurningin kemur fram. Guðrún Tinna segir þó engar spurningar fólks beinlínis rangar.

„Þetta snýst um að spyrja nákvæmrar spurningar. Þú getur ekki spurt almennrar spurningar, til dæmis hvort þú sért á réttri leið. Spurningin verður að vera sértækari en svo,“ segir Guðrún Tinna.

Túlkun spilanna getur svo verið margvísleg en á alltaf að vera til að hjálpa fólki að finna rétta braut eða til þess að halda áfram á núverandi braut.

„Sumir óttast tarotspilin en það er óþarfi. Þau geta vissulega sýnt okkur að breytingar séu í vændum eða varað okkur við að fara ákveðna leið en það er til að hjálpa, ekki skapa hræðslu.“

Lestur tarotspila nýtur aukinna vinsælda á Íslandi og hefur Guðrún Tinna haldið fjöldann allan af námskeiðum og haldið utan um samfélag tarotlesara á Íslandi á netinu.

„Ég hef mjög takmarkað tekið það að mér að lesa í spil fyrir fólk sjálf, en mér finnst mikilvægt að viðhalda þekkingu minni og annarra og held því reglulega námskeið þar sem farið er yfir merkingu spila og fleira í þeim dúr.“ Septembernámskeið Guðrúnar Tinnu er þegar hafið en hún stefnir á að vera með annað í október.

Vel sótt námskeið í góðu húsi

Á tarotnámskeiði Guðrúnar Tinnu Thorlacius er tekin yfirferð yfir spilin, tölur þeirra og tákn eru útskýrð en umfram allt er námskeiðið skemmtilegt og fróðlegt að hennar sögn.

„Þetta er ekki fyrsta námskeiðið sem ég held og ekki það síðasta. Farið er vel yfir allt saman og útskýringar eru settar fram á bæði áhugaverðan og skemmtilegan hátt,“ segir Guðrún Tinna í samtali við Morgunblaðið og bendir á að með námskeiðinu öðlist fólk aukið sjálfsöryggi með spilin og túlkun þeirra.

„Þetta eru vel sótt námskeið og áhuginn er að aukast enda góður andi í húsinu við Suðurgötu 35 þar sem námskeiðið er haldið og félagsskapurinn um leið mjög góður,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert