Eignir Magnúsar kyrrsettar

Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon. Ljósmynd/Aðsend

Beiðni stjórnar United Silicon um að kyrrsetja eignir Magnúsar Garðarssonar, stofnanda og fyrrverandi forstjóra United Silicon, hefur verið samþykkt hjá sýslumanni.

Stjórn United Silicon sendi kæru til embætt­is héraðssak­sókn­ara um mögu­lega refsi­verða hátt­semi Magnúsar fyrr í mánuðinum. Rúv greinir frá því að bótakrafa stjórnarinnar á hendur Magnúsi hljóði upp á 4,2 milljónir evra, sem samsvarar um 540 milljónum króna. Magnús hefur ekki haft aðkomu að rekstri eða stjórn­un fé­lags­ins síðan í mars.

„Þetta er einn angi af því að gæta hagsmuna fyrirtækisins,“ segir Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi United Silicon, í samtali við mbl.is.

Kyrrsetningin tekur einungis til eigna Magnúsar hér á landi og þarf United Silicon því að leita út fyrir landsteinana til að fullnusta kyrrsetningu eigna Magnúsar. Karen sagðist ekki geta tjáð sig um það á þessu stigi málsins hvort stjórnin muni grípa til þess ráðs.

United Silicon hefur verið í greiðslustöðvun frá 4. september og hafa Ari­on banki og fimm líf­eyr­is­sjóðir tekið yfir 98,13% hluta fyrirtækisins. Ákvörðunin var tek­in á hluta­hafa­fundi fé­lags­ins 19. september. Héraðsdómur Reykjaness veitti fyrirtækinu  greiðslu­stöðvun í þrjá mánuði, eða til 4. des­em­ber.

mbl.is