Ekki mikilvægast að koma börnum í skjól

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Ómar

„Ég tek ekki undir með háttvirtum þingflokksformanni Vinstri grænna, að mikilvægasta málið sé að koma börnum í skjól. […] Það er jafn mikilvægt að bjarga fjölskyldum og búum sauðfjárbænda.“ Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í umræðu um breytingar á lögum um uppreista æru.

Gunnar Bragi, sem sér nú fram á harða baráttu við Ásmund Einar Daðason um atkvæði samflokksmanna sinna í Norðvesturkjördæmi, sagði í ræðu sinni að ef mál sauðfjárbænda væri ekki til lykta leitt fyrir þinglok, tæki hann ekki þátt í að afgreiða þau þrjú mál sem formenn flokkanna hafa komið sér saman um að klára.

Hann tjáir sig um málið á Facebook og segir þar að mikilvægt sé að hjálpa börnum á flótta en það sé líka mikilvægt mál að hjálpa íslenskum bændafjölskyldum „sem leggja það á sig að framleiða mat fyrir okkur hin.“

Sauðfjárbændur hafa mátt þola miklar lækkanir á afurðaverði en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti á dögunum tillögur sem áttu að stuðla að fækkun sauðfjár og lausn vandans. Ekki voru allir á eitt sáttir um tillögurnar en slit Bjartrar framtíðar á ríkisstjórnarsamstarfinu setti málið á ís.

Gunnar Bragi er afar ósáttur við að slíti eigi þingi án þess að taka á málefnum sauðfjárbænda, en á meðal þeirra þriggja mála sem stendur til að afgreiða á þinginu í dag, eru breytingar á útlendingalöggjöfinni sem miða að því að tryggja réttindi barna sem eru á flótta. Um það hefur ríkt sátt.

„Ég verð að segja það að þetta eru allt mikilvæg mál. En ég spyr, herra forseti […], hvernig stendur á því að við erum ekki hérna með á dagskrá eitt brýnasta málið sem þarf að fylgjast með?“ sagði Gunnar Bragi í pontu og hélt áfram. „Og ég tek ekki undir með háttvirtum þingflokksformanni Vinstri grænna, að mikilvægasta málið sé að koma börnum í skjól – ég held hann hafi sagt það. Það er mikilvægt mál. En það er jafn mikilvægt og að koma til móts og bjarga fjölskyldum og búum sauðfjárbænda, sem enginn hefur nefnt hér í þessum sal.“

Hann spurði hverjir hefðu komið í veg fyrir að hægt væri að leysa þau mál fyrir þinglok. „Mér er sagt að það hafi verið rætt á fundum formanna að leysa þau mál en að um það hafi ekki náðst samkomulag. Ég sagði á þingflokksfundi á síðustu viku að ef þetta yrði skilið útundan herra forseti, þá tæki ég ekki þátt í að afgreið þau mál sem hér eru á dagskrá.“

Hann bætti við: „Það mál sem ég nefndi hér; fjölskyldur, býli, framtíð, atvinna sauðfjárbændanna, er ekki minna mikilvægt heldur en þessi þrjú mál hér.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert