Guðfinna dregur framboðið til baka

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi. mbl.is/aðsent

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur dregið framboð sitt til setu á Alþingi fyrir flokkinn, til baka. Frá þessu greinir hún á Facebook.

Í samtali við mbl.is segist hún hafa haldið að flokkurinn myndi standa saman sem ein heild en henni sé nú ljóst að svo sé ekki. Spurð hvort hún gæti hugsað sér að ganga til liðs við boðað framboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir Guðfinna að í þeim efnum sé ekkert ákveðið. „Ég er bara að hugsa málið. Það verður bara að koma í ljós.“

Á Facebook segir Guðfinna: „Þegar ég ákvað að gefa kost á mér í 1. sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður fyrir næstu kosningar vildi ég trúa því að flokkurinn myndi standa saman sem einn maður og ganga samheldinn til kosninga. Því miður er það ekki raunin. Ég hef því ákveðið að draga framboð mitt til baka.“

Það var 18. september sem Guðfinna, sem á sæti í borgarstjórn Reykjavíkur, tilkynnti að hún hygðist gefa kost á sér í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Nú er ljóst að af því verður ekki. „Ég er enn þá borgarfulltrúi,“ segir Guðfinna spurð hvort hún hyggist halda áfram í stjórnmálum.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert