OR undirbýr rannsókn á örplasti í vatni

Sýni verða tekin úr vatninu á nokkrum stöðum, m.a. í …
Sýni verða tekin úr vatninu á nokkrum stöðum, m.a. í vatnsbólum Orkuveitunnar, úr dreifikerfum Veitna og svo á nokkrum stöðum hjá neytendum. mbl.is/Heiddi

Orkuveita Reykjavíkur vinnur nú að því að undirbúa mælingar á því hvort örplast leynist í neysluvatni Íslendinga. Þetta staðfestir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna.

Mbl.is greindi frá því byrjun þessa mánaðar að Orkuveitan hefði sett sig í samband við rannsakendur Orb Media, sem stóðu fyrir stórri rannsókn á örplasti í neysluvatni ríkja í Evr­ópu, Am­er­íku, Afr­íku og Asíu. Fyrst var greint var frá rannsókninni á vef Guar­di­an, sem sagði örplast hafa fund­ist í neyslu­vatni í 83% tilvika. Reyndist ástandið verst í Banda­ríkj­un­um þar sem plast fannst í 94,4% til­vika, en þar sem það mæld­ist best í Evr­ópu fannst örplast engu að síður í drykkj­ar­vatni í 72% til­vika.

„Þegar við frétt­um af þess­ari rann­sókn [...] þá settu okk­ar vís­inda­menn sig í sam­band við rann­sak­end­urna og við erum að und­ir­búa það að senda sýni héðan til að at­huga hvort að örplast sé að finna í vatn­inu í Reykja­vík,“ hafði mbl.is eftir Ei­rík­ur Hjálmarssyni upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar á þeim tíma.

Ólöf segir Orkuveituna nú hafa skoðað málin vel og hafa ákveðið standa fyrir sínum eigin mælingum á því hvort örplast leynist í íslensku neysluvatni. „Við erum búin að vera í samskiptum við þá [Orb Media] og erum núna að vinna að því að afla okkur búnaðar og annars til að geta mælt þetta hér,“ segir hún.

Útlit sé fyrir að mælingarnar verði gerðar í nóvember og niðurstöður liggi væntanlega fyrir fyrir áramót.

Sýni verða tekin á nokkrum stöðum, m.a. í vatnsbólum Orkuveitunnar, úr dreifikerfum Veitna og svo á nokkrum stöðum hjá neytendum að sögn Ólafar. „Þetta er væntanlega mismunandi eftir hverfum, því að vatnslagnirnar eru misgamlar og því munum við væntanlega taka nokkur sýni hjá notendum.“

mbl.is