Segir styttinguna bitna á tungumálakennslu

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, telur máltækni mikilvæga við varðveislu íslenskunnar. …
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, telur máltækni mikilvæga við varðveislu íslenskunnar. Evrópski tungumáladagurinn er í dag. mbl.is/Golli

Máltækninni, sem er samvinna tungumáls og tölvutækni þar sem m.a. er hægt að stjórna tækjum og tólum með því að tala til þeirra, má líkja við prentbyltinguna. Þetta segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO.

„Prentun er ein tegund varðveislu og það er stafræna tæknin líka. Með því að leggja áherslu á íslenska máltækni gerum við allt sem er í okkar valdi til að varðveita þær gersemar sem íslensk tunga er,“ segir Vigdís í viðtali í Morgunblaðinu.

Evrópski tungumáladagurinn er í dag og af því tilefni verður málþing í Veröld – húsi Vigdísar, þar sem rætt verður um kennslu erlendra tungumála.

Áskorun að börn á flótta fái að viðhalda móðurmáli sínu

Vigdís segir að á alþjóðavettvangi sé mikið rætt um tungumálakennslu. Ein áskorunin á því sviði sé að börn á flótta fái að viðhalda móðurmáli sínu á sama tíma og þau tileinki sér tungumálið sem talað er í nýjum heimkynnum.

Hún segir miður að ekki sé nægileg áhersla lögð á önnur erlend tungumál en ensku í grunn- og framhaldsskólum og segir ástæðu til að hafa áhyggjur af áhrifum styttingar náms til stúdentsprófs á tungumálakennslu. „Við Íslendingar höfum einfaldlega ekki ráð á að þrengja að tungumálakennslu.“ 

Núna séu t.d. milljónir manna á flótta undan átökum og stríði, talsverður hluti þeirra sé börn og huga þurfi að því að þau fái að viðhalda móðurmáli sínu á sama tíma og þau tileinki sér tungumálið sem talað er í nýjum heimkynnum. „Ótal rannsóknir sýna að það er vænlegast að börn, sem eru byrjuð að tala tungumál heimalands síns, séu studd til að viðhalda því. Ég hef persónulega reynslu af þessu, því ég á vini sem komu hingað til lands frá Þýskalandi fyrir seinni heimsstyrjöldina sem tala skínandi góða íslensku en tókst jafnframt að viðhalda móðurmáli sínu. Þegar við bjóðum fólk velkomið til okkar eigum við að bera virðingu fyrir þeirra tungumáli. Við þyrftum að gera gangskör að þessu,“ segir Vigdís.

Öll tungumál styrkja hvert annað

Að standa vörð um íslenskuna hefur löngum verið Vigdísi hugleikið og hún segir að áhersla á málvernd styðji vel við að leggja áherslu á kennslu erlendra tungumála. „Öll tungumál styrkja hvert annað. Við, þessi fámenna þjóð, verðum allar stundir að gera allt sem í okkar valdi stendur til að standa vörð um einstakt og orðríkt tungumál okkar. En á sama tíma verðum við auðvitað að geta umgengist heiminn með tungumálum annarra þjóða.“

Vigdís segir ástæðu til að hafa áhyggjur af áhrifum styttingar náms til stúdentsprófs á tungumálakennslu. Ljóst sé að það hafi þegar haft áhrif. „Stytting framhaldsskólanna hefur bitnað á tungumálakennslunni og ég er hrædd um að við eigum eftir að gjalda fyrir það, því miður. Nemendur eru sennilega ekki búnir að átta sig á því ennþá, það er svo stutt liðið síðan námstíminn var styttur. En þegar þeir ljúka stúdentsprófi og fara utan að læra gætu margir skynjað að þeir hafi ekki fengið nægilega undirstöðu. Við Íslendingar höfum einfaldlega ekki ráð á að þrengja að tungumálakennslu.“

Veröld - hús Vigdísar.
Veröld - hús Vigdísar. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Vigdís segir miður að ekki sé nægileg áhersla lögð á önnur erlend tungumál en ensku í grunn- og framhaldsskólum. „Það er mikill misskilningur að alls staðar sé hægt að koma sér áfram með því að kunna sæmilega ensku. Enska er ekki sá aðgöngumiði að heiminum sem margir halda. Það er okkur auðvitað nauðsynlegt að kunna ensku, en það er ekki síður nauðsynlegt að kunna önnur tungumál. Einsleitni getur aldrei verið af hinu góða.“

Talið berst að dönskukennslu í grunnskólum og því að fyrir nokkrum árum var dregið þar úr vægi dönskunnar og ensku þá gert hærra undir höfði. „Að mínu mati er börnnum ekki kennd danska á réttum tíma,“ segir Vigdís. „Það á að kenna þeim þetta gagnlega tungumál fyrir okkur Norðurlandabúa fyrr, áður en þau fara að velta því mikið fyrir sér hvort það sé gagnlegt að læra dönsku eða ekki. Við eigum vissulega að kenna börnunum okkar Norðurlandamálin og ég hef heyrt fjölmargt ungt fólk segjast sjá eftir því að hafa ekki lagt meiri rækt við dönskuna.“

 Viðtalið við Vigdísi má lesa í heild í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert