Tólf mánaða dómar fyrir fjársvik

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Tveir karlmenn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir til 12 mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir fjársvik. Mennirnir, annar á fimmtugsaldri en hinn á sextugsaldri, voru ákærðir fyrir að hafa látið útbúa 22 tilhæfulausa reikninga frá Vert ehf. til Ölgerðarinnar.

Frétt mbl.is: Tveir kærðir fyrir fjársvik

Í ákærunni segir að annar mannanna, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Ölgerðinni, hafi samþykkt að bókari og gjaldkeri skyldu greiða reikningana og þannig hafi þeir verið blekktir.

Mennirnir hafi haft samráð um hina röngu og tilhæfulausu reikningsgerð og skipt með sér ávinningnum. Reikningarnir hljóðuðu samtals upp á rúmar 9 milljónir króna.

Mennirnir voru auk þess dæmdir til að greiða málsþóknun til verjenda sinna, annar tæpar tvær og hálfa milljón króna en hinn tæpar 600 þúsund krónur.

Fullnusta refsingar fellur niður ef mennirnir halda skilorð næstu tvö árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert