„Ég hef oft upplifað miklar sveiflur“

Katrín Jakobsdóttir gengur til fundar við Bjarna Benediktsson, eftir kosningarnar …
Katrín Jakobsdóttir gengur til fundar við Bjarna Benediktsson, eftir kosningarnar í fyrra. mbl.is/Eggert

„Mig langar ekkert sérstaklega að verða forsætisráðherra en mig langar að leiða góða ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboð, í samtali við mbl.is.

Flestir vilja sjá Katrínu sem næsta for­sæt­is­ráðherra Íslands, sam­kvæmt skoðana­könn­un Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar sem gerð var fyr­ir Morg­un­blaðið í síðustu viku. 46% þeirra sem tóku afstöðu vilja að Katrín verði forsætisráðherra eftir komandi alþingiskosningar. Samkvæmt þeirri könnun nýtur VG stuðnings 30% kjósenda.

Katrín segist vera mjög þakklát fyrir þann stuðning sem birtist í skoðanakönnuninni en bendir á að um hafi verið að ræða eina könnun. „Við finnum fyrir mikilli jákvæðni úti í samfélaginu. En ég er búin að vera í þessu í tíu ár og það sem skiptir máli er það sem kemur upp úr kössunum á kjördegi. Ég hef oft upplifað miklar sveiflur.“ Hún taki því þeim byr sem birtist í skoðanakönnunum með ­jafnaðargeði.

Stuðningur við Katrínu er töluvert meiri en við flokkinn sem hún leiðir, VG. Spurð hvernig hún upplifi þann persónulega stuðning sem hún njóti í skoðanakönnunum svarar hún því til að auðvitað sé hann mjög hvetjandi. „Maður finnur fyrir stuðningi og jákvæðni þegar maður fer út á meðal fólks.“ Hún segir að sá stuðningur veiti henni bjartsýni fyrir komandi kosningabaráttu.

Meirihlutaræðið ekki gott

Þingi var slitið seint í gærkvöldi og fáein mál voru til afgreiðslu. Við þinglokin segist Katrín sæmilega sátt en segir að það hafi verið vonbrigði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi greitt atkvæði gegn þeirri tillögu sem samþykkt var um börn á flótta.

Í síðustu ræðu sinni á Alþingi lét Birgitta Jónsdóttir þung orð falla. Hún sagðist upplifa mikla spillingu í vinnubrögðum á Alþingi og sagði að enn væri verið að „skítamixa“. Þar vísaði hún til þeirra mála sem afgreidd voru í gær. „Þetta allt sem við erum með hérna, þessi ör­fáu mál, þau eru plástr­ar. Við erum ekki að taka á rót vand­ans. Eft­ir öll þessi ár sem við höf­um haft til þess að laga hlut­ina og læra af því sem var or­sök og af­leiðing hruns­ins. Þetta hérna er bara enn ein birt­inga­mynd þess hvernig við höf­um ekki lært.“ Hún sagði ömurlegt að fylgjast með vinubrögðum þingsins.

Birgitta Jónsdóttir hefur flutt sína síðustu ræðu á þingi.
Birgitta Jónsdóttir hefur flutt sína síðustu ræðu á þingi. mbl.is/Eggert

Katrín hefur setið lengi á þingi, og lengst af í stjórnarandstöðu, líkt og Birgitta. Spurð hvort hún deili þeim sjónarmiðum sem Birgitta setti fram svarar hún því til að margt megi gera miklu betur í íslensku samfélagi og stjórnsýslu. Sérstaklega geti stjórnvöld staðið sig betur í að hafa ákvarðanir opnar og gagnsæjar. Hún segist oft hafa gagnrýnt menningu meirihlutaræðis á Íslandi. Hún sé hvorki góð fyrir lýðræði né þingræði. „En um leið vil ég segja – ég er búin að vera í 10 ár á þingi – að mér finnst oft hafa náðst gríðarlega góður árangur á þingi, í góðu samstarfi flokkanna. Þetta er ekki einlit mynd fyrir mér.“

Hún segir að hún upplifi Alþingi sem mjög mikilvæga stofnun í íslensku samfélagi sem oft hafi unnið vel að góðum málum. Hún nefnir í því samhengi afgreiðslu útlendingalaga á sínum tíma og breytingar á húsnæðislögum, þar sem allir hafi unnið í takt. „Það eru til góð dæmi en það er líka margt sem hægt er að gera betur.“

Eftirspurn eftir stöðugri ríkisstjórn

Ekki verður liðið ár frá síðustu alþingiskosningum, þegar kjósendur stíga inn í kjörklefa 28. október. Katrín segir að ekki sé æskilegt að kosningar séu árlegur. Hún heyri mjög víða, ekki síst úr sveitarstjórnum og stofnunum, að fólki þyki sú óvissa sem uppi er um fjárframlög til stofnana og ýmissa verkefna bagaleg. Hún nefnir sauðfjárbændur og aðra þá sem þurfi að gera áætlanir til lengri tíma. „Þetta er ekki gott. Síðustu fjárlög voru samþykkt án pólitísks starfandi meirihluta og við afgreiðslu þeirra voru mjög mörg mál skilin eftir. Ég les það þannig að það er mikil eftirspurn eftir stöðugri ríkisstjórn til næstu ára.“

Vonast eftir samstöðu

Þegar Katrín er spurð um hvaða mál hún vilji að verði á oddinum í kosningabaráttunni nefnir hún kjör eldri borgara og öryrkja. Eldri borgarar séu jafn ósáttir við frítekjumarkið nú og þeir voru fyrir ári, enda hafi fyrirheit ríkisstjórnarflokkanna um bætt kjör þessara hópa ekki skilað sér til fólksins. Hún segir dapurlegt að upplifa skort á efndum þegar kemur að loforðum um uppbyggingu innviða, en um það hafi kosningabaráttan í fyrra snúist. Í því samhengi nefnir hún styrkingu heilbrigðiskerfisins, greiðsluþátttöku sjúklinga, heilsugæsluna og svo skólana, sem þurft hafi að takast á við skerðingu, ef eitthvað sé.

Loks nefnir Katrín stöðu þolenda í kynferðisbrotum, málefnið sem felldi ríkisstjórnina. „Ég held og vona að það séu möguleikar til þverpólitískrar samstöðu um þau mál og að það verði varanleg viðhorfsbreyting í þeim efnum.“

Illskeyttari umræða

Katrín vonast til að kosningabaráttan snúist um málefnin og hvernig vinnulagið sé í stjórnkerfinu. Opna þurfi fyrir aðgang að upplýsingum. Hún segir að pólitísk umræða sé að mörgu leyti orðin illskeyttari en hún var áður. „Það eru mikil átök á hinu pólitíska leiksviði.“ Hún segir að þó hún sé ekki gömul hafi samfélagsmiðlar ekki verið til þegar hún var að byrja í pólitík. „Umræðan er gríðarlega mikið breytt með samskiptamiðlunum. Þeir hafa gjörbreytt umræðunni og gefið fólki meira vald, sem er frábært. Almenningur hefur dagskrárvaldið en ekki fjölmiðlar eða stjórnmálaflokkar. En stjórnmálamennirnir hafa líka notað sér þessa miðla til að taka illskeyttari umræðu en áður. Það er dökka hliðin á þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert