Hinn grunaði „þokkalega samvinnufús“

Frá lögregluaðgerðum á Hagamel á föstudag.
Frá lögregluaðgerðum á Hagamel á föstudag. mbl.is/Golli

Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir er­lend­um karlmanni á fer­tugs­aldri sem er grunaður um að hafa veitt Sanita Brauna, 44 ára, frá Lett­landi áverka sem leiddu til dauða henn­ar. Hvorki liggur fyrir hversu langt varðhald verður farið fram á né hvort það verði á grundvelli rann­sókn­ar­hags­muna eða almannahagsmuna. Maðurinn verður leiddur fyrir héraðsdóm Reykjavíkur á morgun. 

Maðurinn verður yfirheyrður í dag. Hann hefur verið yfirheyrður nokkrum sinnum frá því hann var handtekinn í síðustu viku. Í yfirheyrslum hefur hann verið „þokkalega samvinnufús“ að sögn Einars Guðbergs Jónssonar lögreglufulltrúa. 

Atburðarásin liggur fyrir að mestu leyti, að sögn Einars. Hann vildi ekki gefa upp hvort maðurinn hafi játað. Vopni eða áhaldi var beitt við árás­ina en ekki fengust upplýsingar um hvers kyns áhaldið hafi verið.

Beðið er eftir endanlegri niðurstöðu krufningarinnar og eiturefnarannsóknar. Einar gat því ekki svarað því til hvort meintur gerandi hafi verið undir áhrifum áfengis- eða vímuefna. Lögreglan hefur fengið bráðabirgðaniðurstöður munnlega en vill ekki greina frá henni. Óvíst er hvort niðurstaða krufningar verði gerð opinber. 

Fram hefur komið að karlmaðurinn og Bruna hafi þekkst en ekki er vitað hversu löng sú vinátta hafi varað. 

Ekki fengust upplýsingar um hvar hin látna starfaði hér á landi að virðingu fyrir fjölskyldu hinnar látnu, að sögn lögreglunnar.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert