Ríkið dæmt til að greiða lögreglufulltrúa 2,2 milljónir í bætur

Það er niðurstaða dómsins að ákvörðun yfirstjórnar LHR um að …
Það er niðurstaða dómsins að ákvörðun yfirstjórnar LHR um að víkja stefnanda frá störfum um stundarsakir hafi í senn verið óþörf og ólögmæt. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða fyrrverandi lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 2,2 milljónir kr. en honum var vikið frá störfum tímabundið í janúar 2016 með ólögmætum hætti. 

Maðurinn, sem hafði starfað sem lögreglumaður frá árinu 2000, höfðaði málið á hendur ríkinu í nóvember í fyrra. Hann krafðist þess að ríkið dæmdi honum miskabætur að fjárhæð 4.000.000 kr. og hins vegar skaðabætur að fjárhæð 1.144.210 kr. vegna fjártjóns. Dómurinn taldi hins vegar hæfilegt að dæma honum 2,2 milljónir í miskabætur.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi greint frá því, að af einhverjum ástæðum, sem honum væru ekki kunnar, hefði farið af stað orðrómur um að hann ætti í óeðlilegu sambandi við upplýsingagjafa deildarinnar. Orðrómurinn um óeðlileg samskipti hans við tiltekinn upplýsingagjafa hefið komist á flug síðla árs 2010 eða í byrjun árs 2011. 

Í ársbyrjun 2012 bárust síðan upplýsingar frá öðrum upplýsingagjafa lögreglu sem sagði að maðurinn þægi greiðslur frá sínum upplýsingagjafa gegn því að veita honum upplýsingar um störf lögreglu. Þáverandi yfirmaður fíkniefnadeildar tók málið í sínar hendur og ritaði minniblað þar sem rökstutt var að ekkert benti til þess að lögreglumaðurinn hefði þegið greiðslur eða lekið upplýsingum. 

Frá ársbyrjun 2013 gengdi maðurinn tveimur stöðum samhliða innan lögreglunnar, annars vegar sem lögreglufulltrúi hjá fíkniefnadeild og hins vegar stýrði hann aðgerðarhóp og upplýsingatemi innan deildarinnar. Hann var frá upphafi ósáttur við að gegna báðum störfum samhlið og óskaði eftir úrbót á því. Ekkert var gert í þeim málum þrátt fyrir að hann hafi vakið athylgi á stöðunni en vorið 2015 fékk orðrómurinn byr undir báða vængi og leituðu starfsmenn deildarinnar þá til þáverandi aðstoðarlögreglustjóra, Öldu Hrannar Jónsdóttur. Á þeim tímapunkti var svo mikill órói á deildinni að hún var nánast óstarfhæf að því er fram kemur í dómnum. 

Héraðsdómur segir ágreiningslaust að þær sakir sem bornar voru á lögreglufulltrúann sé með þeim alvarlegri sem bornar verði upp á lögreglumann; sakir um að yfirmaður í fíkniefnadeild taki við greiðslum í staðin fyrir upplýsingar til uppljóstrara til að spilla rannsókn mála og halda hlífiskildi yfir viðkomandi.

Ásakanirnar hafi alla tíð verið órökstuddar

Dómurinn segir að það sé óhjákvæmilegt að ganga út frá því að ásakanir á hendur lögreglufulltrúanum hafi alla tíð verið með öllu órökstuddar. Þær byggðu þannig einungis á orðrómi og engu öðru. Þá segir að yfirstjórn LRH hafi öll virst, sem og flestir starfsmenn fíkniefnadeildar, hafi allan tímann borið fyllsta traust til lögreglufulltrúanumað undanskildum lögreglustjóranum Sigríði Björk Guðjónsdóttur að því er virðist.

„Horfa verður til þess við úrlausn þessa máls að ástandið á fíkniefnadeildinni var afar slæmt á þeim tíma þegar ásakanir á hendur stefnanda voru rifjaðar upp vorið 2015. Grunur var um einhvern leka á þessum tíma, en síðar kom í ljós að einn þeirra sem lýsti grunsemdum um brot stefnanda var sjálfur dæmdur í apríl sl. fyrir brot á þagnarskyldu sem lögreglumaður, fyrir að taka í starfi við ávinningi sem hann átti ekki tilkall til, að heimta greiðslu við framkvæmd starfs síns. Jafnframt fyrir brot á reglum sem um starfa hans giltu, vanrækslu og hirðuleysi í starfi. Viðkomandi lögreglumaður fékk fimmtán mánaða fangelsisdóm,“ segir m.a. í dómnum.

Yfirstjórn LHR gekk of langt

Það er niðurstaða dómsins að yfirstjórn LHR hafi gengið of langt gagnvart lögreglufulltrúanum þegar ákveðið var að veita honum lausn um stundarsakir 14. janúar 2016 og að sú ákvörðun hafi verið ólögmæt.

„Rannsóknarreglu stjórnsýslu­réttar hafi ekki verið gætt sem skyldi og heldur ekki andmælaréttar stefnanda þar sem honum hefði verið hægt að koma við. Jafnframt hafi meðalhófs ekki verið gætt í ljósi atvika málsins og þá einkum þeirrar staðreyndar að engin afgerandi gögn sem ekki var auðveldlega hægt að hnekkja koma fram í málinu frá því að orðrómur fæddist um áramótin 2010/2011, um að stefnandi væri ekki allur þar sem hann væri séður og reyndar gjörspilltur, og þar til framangreind ákvörðun um lausn var tekin.“

Fól í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu mannsins

Ennfremur segir, að ef yfirstjórn LHR hafi talið með öllu útilokað að lögreglufulltrúinn væri áfram sýnilegur í störfum sínum fyrir lögregluna, eins og virðist hafa verið, þá hefði sá kostur einnig verið fær að leysa hann undan vinnuskyldu meðan á rannsókn stæði án þess að um lausn samkvæmt 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga um stundarsakir væri að ræða, eins og dæmi munu vera um.

„Því er það niðurstaða dómsins að ákvörðun yfirstjórnar LHR um að víkja stefnanda frá störfum um stundarsakir hafi í senn verið óþörf og ólögmæt. Ákvörðunin var án nokkurs vafa til þess að gefa á þeim tíma mjög alvarlegum ásökunum samstarfs­manna embættisins á hendur stefnanda byr undir báða vængi og valda stefnanda miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan. Ákvörðunin fól í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda og eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. b-lið um að gera stefnda að greiða stefnanda miskabætur,“ segir í dómnum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is