Sanita smitaði frá sér jákvæðni

Sanita Brauna, fórnarlamb í morðmáli á Hagamel lætur eftir sig …
Sanita Brauna, fórnarlamb í morðmáli á Hagamel lætur eftir sig þrjú börn og foreldra. Hún var ánægð í starfi sínu og stefndi á að koma aftur til Íslands eftir frí í Lettlandi sem hefjast átti í vikunni.

Sanita Brauna var eins og mamma allra á vinnustaðnum sínum, hún var sáttasemjari þegar þess þurfti og mætti alltaf þegar starfsfólkið hittist utan vinnu. Hún var lífsglöð og vinnufélagar segjast margt geta lært af viðhorfi hennar til lífsins sem einkenndist af þakklæti og jákvæðni. Sanita lét sér annt um fólk og kom vel fram við alla. Fjölskyldan segir hana hafa gert allt fyrir börnin sín þrjú og hjartað hafi alltaf verið í Lettlandi. Stofnaður hefur verið stuðningsreikningur fyrir fjölskyldu hennar.

Söfnun fyrir fjölskylduna

Fjölskylda Sanitu Brauna fær mikinn stuðning víða að á þessum erfiðu tímum að sögn Sigurðar Freys Sigurðssonar sem tilnefndur hefur verið réttargæslumaður barna hennar og foreldra. „Þetta er fjárhagslega þungt fyrir þau að koma hingað til lands,“ segir hann en fjölskyldan er væntanleg til Íslands í næstu viku. „Fjölskyldan hefur fengið góða aðstoð. Það eru allir af vilja gerðir að aðstoða þau eftir fremsta megni.“

Samstarfsfólk hennar og vinir hér á landi stóðu fyrir því að stofnaður yrði söfnunarreikningur fyrir fjölskylduna svo fjárhagsáhyggjur þurfi ekki að íþyngja þeim ofan á sorgina.

Söfnunarreikningur: 0140 - 26 - 001053. Kennitala: 670812 - 1540.

Öll framlög sem lögð eru inn á þennan fjárvörslureikning, sem hýstur er hjá lögfræðistofunni Land lögmenn, renna beint til barna Sanitu. 

Vinnufélagarnir Steinar Geir Agnarsson, Melkorka Ragnhildardóttir, Halla Guðrún Jónsdóttir, Sanita …
Vinnufélagarnir Steinar Geir Agnarsson, Melkorka Ragnhildardóttir, Halla Guðrún Jónsdóttir, Sanita Brauna, Andrea Björnsdóttir, Elisa Maccagnoni, Klaudia Jakubowska og Ibolya Nagy á leið í óvissuferð hótelsins sem reyndist vera hestaferð.

Góðhjörtuð og blíð

Sanita Brauna fæddist 14. október 1972 og hefði orðið 45 ára gömul eftir hálfan mánuð. Þeim áfanga nær hún þó ekki því henni var ráðinn bani í árás á heimili sínu á Hagamel fyrir rúmri viku, fimmtudagskvöldið 21. september.

Sanita Brauna var fædd og uppalin í bænum Ventspils sem er hafnarbær vestast í Lettlandi. Hún á eina systur, Vigritu, sem er fjórum árum eldri. Foreldrar Sanitu eru Vilnis og Skaidrîte Brauna og börn hennar þrjú heita Sendija 25 ára, Ketija 20 ára og Renjis 15 ára. Dæturnar eru farnar að heiman og Senija er gift, en Renjis býr hjá föður þeirra, Janis.

Sanita lærði á fiðlu og söng lengi í kirkjukór í Ventspils enda með fallega sópranrödd að sögn fjölskyldunnar, sem deildi ýmsum upplýsingum um líf hennar og störf með blaðamanni. 

„Hún var góðhjörtuð og blíð og sýndi fólki alltaf væntumþykju og var til í að hjálpa öllum sem þurftu. Hún var full af bjartsýni jafnvel þótt á móti blési. Sanita var einstök móðir. Hún var ekki bara besta mamman sem börnin hennar hefðu getað fengið heldur var hún besti vinur barnanna sinna og alltaf til staðar fyrir þau.“

Sanita var kennaramenntuð og auk þess með próf í viðskiptafræði. Hún hafði gaman af ferðalögum og vildi kanna heiminn utan Lettlands, þar sem hún bjó mestalla tíð. Hún hafði starfað í Bretlandi, Belgíu og Hollandi á síðustu árum áður en hún kom til Íslands en að sögn fjölskyldunnar var hjarta hennar alltaf í Lettlandi hjá hennar nánustu.

Dæturnar Ketija og Sendija með bróður sínum Renijs ásamt ömmu …
Dæturnar Ketija og Sendija með bróður sínum Renijs ásamt ömmu sinni og afa, Vilnis og Skaidrîte, foreldrum Sanitu. Myndin er tekin um jól fyrir nokkru.

Hennar er sárt saknað

Sanita átti auðvelt með að eignast vini og að sögn þeirra sem þekktu til hennar var hún einstaklega opin manneskja og gaf mikið af sér í samskiptum með hlýju og brosmildi. „Það er svo mikilvægt þegar svona mikill harmleikur á sér stað að muna líka hver manneskjan var,“ segir Halla Guðrún Jónsdóttir, samstarfskona Sanitu Brauna, en hún og Melkorka Ragnhildardóttir, önnur samstarfskona, settust niður með blaðamanni til að segja frá vinkonu sinni Sanitu sem var þeim afar kær.

„Hennar er sárt saknað og þetta var mikið áfall fyrir alla sem unnu með henni,“ segir Melkorka. „Það má segja að hún hafi verið límið í hópnum. Hún hafði þroska til að ræða við fólk. Ræddi alltaf við fólk á góðum nótum. Ef einhver ágreiningur kom upp þá var hún alltaf fengin sem sáttasemjari,“ segir Halla.

Á vinnustaðnum eru aðeins tólf starfsmenn en þær segja hópinn þéttan. Öllum hafi líkað vel við Sanitu enda hafi hún lagt sig fram um að kynnast fólki sem hún starfaði með. Alltaf ef hópurinn hittist utan vinnu þá mætti Sanita og smitaði frá sér jákvæðni og gleði.

„Hún var mikil mamma í sér. Hún tók alltaf utan um fólk og aðstoðaði, til dæmis ef einhverjir komu nýir til vinnu. Þótt það væri ekki endilega í hennar verkahring þá gerði hún það samt, það var í hennar eðli. Hún var hvetjandi og sá alltaf það jákvæða í hlutunum. Hún talaði mjög mikið um börnin sín og auðvitað saknaði þeirra oft,“ segir Halla.

Samstarfsfólk Sanitu fékk áfallahjálp

Þegar fregnaðist að Sanita hefði verið myrt segir Melkorka að þau hafi þurft að hafa hraðar hendur til að ná að tilkynna starfsfólki andlátið áður en það færi í alla fjölmiðla. „Við hlupum til á föstudeginum og reyndum að tilkynna öllum sem þekktu hana persónulega um það sem hafði gerst. Á laugardeginum fengum við svo aðstoð fagaðila í áfallahjálp.  Sálfræðingur og  sérfræðingur í áfallaviðbrögðum komu og sátu með okkur og við fengum að tala, deila sögum af henni og góðum minningum.“ Haldin var nokkurs konar minningarstund og samstarfsfólk hennar, sem margt var orðið að góðum vinum Sanitu, gat komið saman og minnst hennar. „Við áttum erfitt með að tengja eitthvað svona hrikalegt við svona yndislega manneskju,“ segir Halla.

Sanita hafði yndi af því að ferðast og elskaði íslenska …
Sanita hafði yndi af því að ferðast og elskaði íslenska náttúru. Henni gafst tækifæri fyrr á árinu til að fara í hellaferð sem hún kunni vel að meta.

Sanita Brauna flutti fyrst til Íslands í fyrra og starfaði þá á hóteli úti á landi. Hún fór svo heim til Lettlands um jólin en kom aftur hingað til lands í febrúar og vildi þá reyna fyrir sér í borginni. Hún fékk fljótt vinnu og var afar ánægð í starfi við þrif á íbúðahóteli í miðborginni. Hún var á leið í frí þegar hún lést og átti pantað flug síðastliðinn sunnudag heim til Lettlands að hitta börn sín og fjölskyldu. Að loknu mánaðarfríi hugðist hún snúa aftur til Íslands.

Fyrst og fremst ólýsanleg sorg fyrir börn hennar

Einn af þeim fyrstu sem Sanita kynntist hér á landi þegar hún kom fyrst árið 2016 var Akeem Cujo Oppong. Hann segir að henni hafi þótt ævintýri að koma til Íslands, hér hafi hún upplifað mikið frelsi og verið hrifin af náttúrunni.„Ég er enn að átta mig á því að þetta hafi gerst. Ég er mjög reiður og sár. En fyrst og fremst er þetta ólýsanleg sorg fyrir börnin hennar. Hún talaði við þau á hverjum degi. Sanita var mjög skemmtileg kona, hún var friðarstillir og vildi ekki rifrildi eða átök við fólk. Hún var mjög opin manneskja, fordómalaus og tilbúin að hjálpa öllum. Hún var dugleg og vildi vinna mikið til að geta safnað peningum svo hún gæti styrkt börnin sín til náms,“ segir Akeem Cujo.

Útför Sanitu Brauna fer fram fimmtudaginn 5. október.   

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert