Árangur í forvörnum fangar athygli Dana

Dregið hefur mikið úr unglingadrykkju hér á landi.
Dregið hefur mikið úr unglingadrykkju hér á landi. AFP

Fréttavefur Politiken fjallar um þann undraverða árangur sem náðst hefur hér á landi á síðustu 20 árum í að draga úr unglingadrykkju og reykingum ungmenna. Einn af hverjum tíu íslenskum unglingum á aldrinum 15 til 16 ára hefur drukkið áfengi síðastliðinn mánuð, samanborið við einn af hverjum fjórum af jafnöldrum þeirra í Danmörku. 

Á síðastliðnum 20 árum hefur hlutfall þeirra ungmenna sem hafa drukkið áfengi síðastliðinn mánuð lækkað úr 42 prósentum niður í 5 prósent. Reykingar unglinga á þessum aldri hafa dregist álíka mikið saman, samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í greininni.

Politiken ræðir við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um árangurinn og hvernig hann hefur náðst. Hann segir að fyrst hafi þurft að greina vandann áður en hægt var að takast á við hann. Í ljós hafi komið að það  hafi ekki virkað vel að ganga á milli skóla og predika yfir ungmennum um skaðsemi áfengis og reykinga. Dagur segir ýmis konar kannanir hafa verið gerðar til að finna út hvað virkaði best, sem meðal annars byggðust á samtölum við unglingana sjálfa. Niðurstaðan var sú að forvarnir virkuðu best. Hann segir þetta ekki snúast um að reyna að stjórna unglingum heldur frekar hvetja til samvista með foreldrum sem séu fyrirmynd og leiðbeini á rétta braut.

Skemmtanir og drykkja fram á nótt 

Hann segir að menningin hafi verið þannig hér áður fyrr að unglingar byrjuðu snemma að vinna fyrir sér á sumrin og nýttu sumarhýruna í ýmiskonar skemmtanir. Það var algengt að unglingar væru úti langt fram eftir kvöldi og jafnvel fram á nótt að skemmta sér. Bærinn hafi oft verið fullur af börnum og unglingum. Þessu hafi fylgt áfengisneysla og reykingar.

Dagur segir það hafa haft jákvæð áhrif þegar reglur um útvist barna og unglinga voru settar. En nú mega unglingar á aldrinum 13 til 16 ára ekki vera úti eftir klukkan 22 á kvöldin á veturna og ekki eftir miðnætti á sumrin. Hann segir það vissulega ekki hafa gengið alveg þrautarlaust fyrir sig að koma þessum reglum á, en með hjálp lögreglu og foreldra hafi þetta orðið að góðri og gildri reglu sem langflestir virði. Þá sé áfengiskaupaaldur hér á landi 20 ár og aldurstakmark til að kaupa sígarettur 18 ár.

Gott samband við foreldra mikilvægt

Dagur segir mikilvægt í forvarnarstarfinu að börn og unglingar séu í góðu sambandi við foreldra sína og að fjölskyldur séu duglegar að gera ýmislegt saman. Hann bendir á að það sé mikilvægt að foreldrar átti sig á því að þeir eru foreldrar barna sinna alveg þangað til þau verða 18 ára. Hann segir gott að að hafa þá reglu á heimilinu að fjölskyldan eigi reglulega góðar samverustundir og ræði það sem er að gerast í lífi fjölskyldumeðlima. Hann segir að með þessu myndist traust á milli foreldra og barna og það dragi úr líkum á því að börnin geri eitthvað sem þau telja rangt.

Dagur segir jafnframt mikilvægt að börn séu virk í íþróttum, tónlistarnámi eða öðrum tómstundum. Í því samhengi bendir hann á að frístundstyrkur sé greiddur með öllum börnum í Reykjavík á aldrinum 6 til 18 sem létti undir með foreldrum varðandi kostnað. Hér áður fyrr hafi áfengisdrykkja verið hluti af tómstundaiðkun og oft hafi verið fagnað eftir kappleiki með áfengi. Þetta hafi hins vegar breyst því foreldrar taki nú meira þátt í tómstundastarfi barna sinna en áður.

Dagur segist í samtali við Politiken skilja að íslenska forvarnarmódelið gangi kannski þvert á hugmyndir Dana um sjálfstæði og sjálfræði unglinga. En hann segist sannfærður um að Danir geti þá fundið sína leið til að draga úr unglingadrykkju. Hann segir það þó einnig merki um ást og umhyggju að leyfa börnum að vera börnum þangað til þau verða 18 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert