Sjálfsrækt og betri meðbróðir

Fremstir eru frá vinstri Jóhann Bogason, Atli Ingvarsson og Grétar …
Fremstir eru frá vinstri Jóhann Bogason, Atli Ingvarsson og Grétar Árnason, stórforseti drúída á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Reglustarfið hefur gefið mér heilmikið. Markmið þess er að verða betri maður, til dæmis með því að kynnast nýju fólki og öðlast þannig skilning á menningu sem er ólík okkar,“ segir Atli Ingvarsson, heiðursforseti Drúídareglunnar á Íslandi.

Í síðustu viku opnuðu drúídar á Íslandi nýtt félagsheimili sitt í Þarabakka í Reykjavík. Þar eru rúmgóð salarkynni eins og þurfti en alls 150 bræður eiga aðild að stúkunni og taka þátt í starfi hennar. Þá er Birgittustúkan Eyrarrós, sem byggist á sama grunni og drúídar, með aðsetur á sama stað.

Launhelgar og góðar dyggðir

Fyrsta drúídaregla heimsins var stofnuð í Lundúnum árið 1781. Á þeim tíma einkenndist breskt þjóðlíf af ólgu og átökum um hugmyndir og stefnu. Nokkrir félagar stofnuðu því reglu sem skyldi vera griðastaður frá átökum samtímans – og stefnan bróðurkærleikur, hjálpsemi og dyggðir. Fyrirmynd þessa alls var sótt til keltneskra manna sem sagðir voru hafa þekkingu og vita sitthvað um launhelgar mannlífsins og góðar dyggðir.

Fyrsta drúídastúkan í Noregi, Nordstjernen í Ósló, var stofnuð 1935. Frá Noregi kom reglan til Íslands árið 1996 þegar stúkan Janus var stofnuð. Sú og þrjár til viðbótar eiga svo aðild að Ísafold, íslensku stórstúkunni, en tengsl og samskipti eru á milli hennar og ríkisreglunnar norsku.

„Reglan og starfið innan hennar er miklu meira en hefðbundið félagslíf. Efst á blaði er auðvitað að starfa samkvæmt hugsjónum og markmiðum, leggja rækt við sjálfan sig til að verða betri meðbróðir og tileinka sér þekkingu sem hefur gildi til lengri tíma,“ segir Atli sem gekk til liðs við drúída fyrir fimmtán árum. Síðan þá hefur hann unnið sig upp í starfinu og er nú á 7. þrepi hennar, sem stundum er kallað riddaragráða.

Nefna ekki pólitík og trúmál

Fundir drúída eru lokaðir og allt sem þar er gert og sagt er trúnaðarmál samkvæmt þeirri þagnarskyldu sem reglubræður undirgangast. Þá gilda formfastar reglur um starfið og framgöngu bræðra á fundum sem eru haldnir á tveggja vikna fresti og skiptast í þrennt. Þeir hefjast með formlegum fundi í sal snemma kvölds, en eftir það er sameiginleg máltíð. Eftir matinn er svo frjálslegur eftirfundur þar sem stundum eru haldin erindi um áhugaverð málefni.

„Smátt og smátt fjölgar í reglunni. Gangurinn á því er yfirleitt sá að við bjóðum mönnum að kynnast starfseminni og hafi þeir áhuga á inngöngu skila þeir meðmælum tveggja bræðra og komast þá yfirleitt í hópinn. Þess eru líka dæmi að menn óski að vera með og þá skoðum við slíkt með opnum huga. Og það ber margt á góma á stúkufundum. Þó er skilyrði að ræða aldrei pólitík eða trúmál. Það efni sundrar fólki en sameinar ekki – en sameining og friðarboðskapur er einmitt inntak og markmið starfs drúída og í reglustarfi almennt,“ segir Atli Ingvarsson.

Allir jafnir

Í stúkum drúída eru menn úr ýmsum þjóðfélagshópum og á öllum aldri. Á vef reglunnar segir að bræður bindist sterkum böndum og styðji hver annan. Vinátta, friður, öryggi, hjálpsemi, réttlæti og bróðurkærleikur séu lýsandi fyrir það andrúmsloft sem einkennir starf drúída. Þeir eru ekki leynifélag en sumt í starfinu er þó leynilegt. Félagsskapurinn er góður og í reglunni eru allir jafnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: