Stígamót braut lög um persónuvernd

Guðrún Jónsdóttir er talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir er talskona Stígamóta. mbl.is/Golli

Stígamót braut lög um persónuvernd meðferð og persónuupplýsinga þegar farið var inn í tölvupóshólf starfsmanns að honum forspurðum. Samtökin litu svo á að starfsmaðurinn hefði látið af störfum með því að hafa sent bréf þar sem úrbóta var krafist á einelti sem hann taldi sig sæta á vinnustaðnum.

Fram kemur í úrskurðinum að starfsmaðurinn hafi  10. október í fyrra sent bréf á starfshóp Stígamóta þar sem „ég lýsti þeirri skoðun minni að ég yrði fyrir einelti á vinnustað og óskaði eftir aðkomu óháðra vinnusálfræðinga til að taka út samskipti og samskiptamynstur starfshópsins, en að ella fengi ég tækifæri til að ræða starfslok mín með fulltrúa stéttarfélags BHM.“

Næsta dag hafi starfsmaðurinn leitað til vinnusálfræðings BHM, sem hafði samband við Stígamót. Þann dag hafði tölvupósti starfsmannsins verið lokað. Skömmu síðar fékk starfsmaðurinn skilaboð í gegn um Facebook um að nýr aðgangur hefði verið stofnaður af tölvupósthólfi hans. „Með upplýsingunum um nýtt lykilorð fylgdi sú útskýring að Stígamót hefði orðið að stofna nýjan aðgang að vinnupóstinum mínum til þess að leita upplýsinga um fræðsluerindi sem ég hafði tekið að mér og átti að fara fram daginn eftir en starfsfólk Stígamóta hefði ekki nægar upplýsingar um. Aldrei var haft samband við mig, hvorki símleiðis né í gegnum tölvupóst til að nálgast þessar upplýsingar,“ segir í úrskurðinum.

Stígamót leit svo á að með bréfi sínu hefði starfsmaðurinn sagt upp störfum. Stígamót hefðu þurft að fara inn í tölvupóstinn, til að afbóka fræðsluerindi og að starfsmaðurinn hefði mátt vita að farið yrði inn í póstinn. Það væri „alvanalegt“.

Á þær skýringar fellst Persónuvernd ekki, enda samrýmist tilvikabundin skoðun Stígamóta á tölvupósthólfi starfsmannsins ekki lögum um persónuvernd og meðferð persónuverndarupplýsinga. Stígamót mátti ekki skoða póstinn.

Fram kemur í úrskurðinum að starfsmenn Stígamóta hafi framsent tölvupóst úr tölvupósthólfi starfsmannsins, að honum forspurðum. Það samrýmist heldur ekki umræddum reglum.

Persónuvernd hefur því úrskurð að meðferð Stígamóta á tölvupósthólfi starfsmannsins vegna starfsloka hans samrýmist ekki lögum um persónuvernd. Stígamót skuli fyrir 1. október (í fyrradag) senda Persónuvernd verklagsreglur um hvernig haga skuli skoðun á tölvupósti starfsmanna á meðan starfi stendur og við starfslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert