Tvö atriði tekin fyrir í Chesterfield-máli

Hreiðar Már í réttarsal ásamt lögmanni sínum, Herði Felix.
Hreiðar Már í réttarsal ásamt lögmanni sínum, Herði Felix. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hæstiréttur Íslands hefur tekið ákvörðun um að í fyrstu umferð verði mál eingöngu flutt um tvö atriði í svokölluðu Chesterfield-máli, sem einnig hefur verið nefnt CLN-málið, í munnlegum málflutningi réttarins sem er á dagskrá þann 11. október næstkomandi. Lúta atriðin tvö að formi málsins. Þetta kemur fram í frétt á vef Hæstaréttar.

Í mál­inu voru þeir Hreiðar og Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður bank­ans, ákærðir fyr­ir stór­felld umboðssvik og fyr­ir að hafa valdið Kaupþingi „gríðarlegu og fá­heyrðu“ fjár­tóni, að því er seg­ir í ákæru. Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Kaupþings í Lúx­em­borg, var einnig ákærður í mál­inu fyr­ir hlut­deild í umboðssvik­un­um. Voru all­ir sak­born­ing­ar sýknaðir í héraðsdómi í janúar á síðasta ári, en ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstréttar.

Þre­menn­ing­arn­ir voru ákærðir fyr­ir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Mana­gem­ent Group S.A. og eign­ar­halds­fé­laga þeirra, sam­an­lagt 510 millj­ón­ir evra haustið 2008. Það jafn­gilti nærri 70 millj­örðum króna miðað við gengi evru 7. októ­ber 2008. Taldi sak­sókn­ari að féð væri allt tapað Kaupþingi.

Breyttar forsendur málsins

Ástæðan fyrir áðurnefndu fyrirkomulagi við munnlegan málflutning í Hætarétti, er sú að forsendur í málinu eru breyttar. Í mars á þessu ári kom í ljós að Deutsche Bank samdi við Kaupþing um að greiða 400 millj­ón­ir evra, eða sem sam­svar­ar 46 millj­örðum króna, vegna krafna þrota­bús­ins í málinu. Með því féll Kaupþing frá kæru og málið skyldi ekki rifjað upp í dóm­stól­um. Heild­ar­krafa þrota­bús­ins var 500 millj­ón­ir og því ljóst að bank­inn greiddi stærst­an hluta kröf­unn­ar. Þar sem ákæran í málinu byggðist á því að fjarhæðin sem um ræðir væri að mestu leyti glötuð þykir Hæstarétti nauðynlegt að í fyrstu umferð, að minnsta kosti, verði málið eingöngu flutt um tvö atriði.

Annars vegar um það hvort sú greiðsla sem Deutsche Bank AG á að inna af hendi hefur þýðingu fyrir grundvöll málsins og úrlausn þess og þá eftir atvikum hvaða þýðingu. Í tengslum við það verður að ætla að fjalla verði jafnframt, meðal annars um hvort við rannsókn málsins hafi verið hugað nægilega að því hvort greiðsluskylda samkvæmt skuldabréfunum hafi hvílt á Deutsche Bank AG, og ef ekki, hvort rannsaka þurfi hvers vegna bankinn hafi þá kosið að greiða framangreinda fjárhæð. Svo og á grundvelli hvaða gagna og með hvað rökum Kaupþing ehf. og félögin tvö, Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group SA, hafi krafið Deutsche Bank AG um greiðslu.

Hins vegar um varakröfu ákæruvaldsins um ómerkingu héraðsdóms vegna ætlaðra annmarka á samningu dómsins, sem ákæruvaldið rökstyður í greinargerð sinni til Hæstaréttar. 

Komi til þess að málið verði síðar tekið til efnismeðferðar fyrir Hæstarétti verður það þá einnig flutt um kröfur ákærðu um frávísun málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert