Hver metri með ofursteypu kostar eina milljón

Borgarfjarðarbrú. Endurnýjun hefur staðið yfir með hléum í fimm ár …
Borgarfjarðarbrú. Endurnýjun hefur staðið yfir með hléum í fimm ár og kostað samtals 520 milljónir. mbl.is/Árni Sæberg

Endurnýjun á gólfi Borgarfjarðarbrúarinnar lýkur um miðjan næsta mánuð. Hún hefur staðið yfir með hléum í fimm ár og kostað samtals 520 milljónir eða sem svarar einni milljón á hvern lengdarmetra.

Áður en Borgarfjarðarbrúin sem tekin var í notkun árið 1981 var orðin tvítug þurfti að ráðast í viðgerðir á hluta stöpla hennar. Steypt var ný kápa utan um þá. Var unnið að því til ársins 2010. Þá var brúargólfið orðið illa farið vegna mikils álags og slitið ofan í járnagrind brúarinnar. Hafist var handa við endurnýjun gólfsins á árinu 2012 og hefur verið unnið að því með hléum síðan.

Steypan hefur verið hreinsuð af og steypt nýtt lag með sterkri steypu sem sérstaklega er hrærð í þessum tilgangi.

Sérstaklega sterk steypa

Ingvi Árnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Vesturlandi, segir að unnið hafi verið að framkvæmdunum snemma vors og seint á haustin til að trufla umferðina sem minnst. Á meðan unnið er að viðgerðum þarf að loka annarri akrein brúarinnar og er umferðinni stýrt með ljósum. Það getur haft í för með sér tafir fyrir vegfarendur. Samtals hefur ljósastýring verið í sextán og hálfan mánuð þau fimm ár sem viðgerðin hefur staðið yfir eða í nærri hálft annað ár.

Nú er unnið að viðgerð á tveimur höfum, samtals 80 metrum. Áætlað er að framkvæmdum við þennan síðasta áfanga ljúki 14. nóvember.

Sérfræðingur í steypufræðum og starfsmenn Vegagerðarinnar hafa unnið brautryðjendastarf við hönnun ofursteypunnar sem notuð er í brúargólfið og einnig í kápu á stöplana á sínum tíma. Í steypuna er notuð sérstaklega slitsterk möl úr fjörunni í Harðakambi við Ólafsvíkurenni. Steypan á að hafa mikinn brotstyrk og þola frostþenslu. Ingvi segir að þessi steypuuppskrift hafi einnig verið notuð við viðgerð á brúnni yfir Blöndu við Blönduós.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert