Skipun héraðsdómara á borði utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu til forseta Íslands að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra verði settur til að fara með mál er varðar skipun í embætti héraðsdómara.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafði óskað eftir því að Guðlaugur Þór tæki verkefnið að sér, sem hann samþykkti, en þetta varðar setningu formanns í dómnefnd sem á að meta hæfi umsækjenda.

Dómsmálaráðuneytinu barst í síðasta mánuði 41 umsókn um 8 stöður héraðsdómara sem auglýstar voru lausar til umsóknar 1. september sl.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að víkja sæti í málinu vegna umsóknar Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns. Hún taldi að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að umsækjendur drægju óhlutdrægni hennar i efa. 

Ástráður staðið í málaferlum við ríkið vegna skipunar ráðherra á dómurum við Landsrétt. Héraðsdómur sýknaði ríkið nýverið en sagði að meðferð dómsmálaráðherra hefði ekki verið í samræmi við lög. Ástráður hefur áfrýjað málinu til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert