Brýnt að sofna ekki á verðinum

Liðsmenn frönsku sveitarinnar rétta kafara sínum búnað til að rannsaka …
Liðsmenn frönsku sveitarinnar rétta kafara sínum búnað til að rannsaka torkennilegan hlut sem marar í hálfu kafi skammt frá. mbl.is/Árni Sæberg

„Við verðum að gæta þess að sofna ekki á verðinum, vera til taks og horfa á heiminn eins og hann er. Æfing sem þessi heldur okkur við efnið og gerir okkur kleift að vera betur undir það búnir að bregðast við þeim erfiðu verkefnum sem kunna að koma upp hér á landi,“ segir Marvin Ingólfsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslu Íslands (LHG) og verkefnastjóri æfingarinnar Northern Challenge 2017, en æfingin, sem er alþjóðleg og stærst sinnar tegundar í heiminum, stendur yfir til 12. október næstkomandi.

Alls taka 33 lið sprengjusérfræðinga frá 15 ríkjum þátt í verkefninu og er heildarfjöldi þátttakenda um 300. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsvið Landhelgisgæslunnar heldur utan um æfinguna, sem styrkt er af Atlantshafsbandalaginu (NATO), og er hún haldin innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli, gamla varnarsvæðinu, í Helguvík og Hvalfirði.

„Við höfum um 450 verkefni og æfum bæði á landi og á sjó með um 300 þátttakendum. Helmingur þeirra er í þjálfun, en það þarf u.þ.b. 150 manns til að sjá um þjálfunina. Þetta er því stór æfing og ein af þeim þremur stærstu sem haldin eru ár hvert í heiminum,“ segir Peter Jegsen, majór í danska hernum og yfirmaður æfingarinnar, en tilgangurinn er að æfa viðbrögð við heimatilbúnum sprengjum sem komið hefur verið fyrir á hinum ýmsu stöðum, s.s. í og undir ökutækjum, við hafnarmannvirki, inni í byggingum, við vegkanta og undir yfirborði sjávar.

Sean Heaton undirsjóliðsforingi (t.v.) og Ásgeir Guðjónsson sprengjusérfræðingur.
Sean Heaton undirsjóliðsforingi (t.v.) og Ásgeir Guðjónsson sprengjusérfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Jegsen segir Ísland henta ágætlega fyrir alþjóðlega æfingu sem þessa, auðvelt sé að koma hingað með mikinn fjölda manns og tilheyrandi búnað víðsvegar að úr heiminum og að finna megi marga hentuga staði til æfinga, meðal annars sökum fámennis hér á landi.

„Svo má hér einnig finna fjölbreytt veðurlag, en veðrið skiptir miklu máli. Ég veit að það kann að hljóma undarlega, en við erum í raun að leita eftir krefjandi veðráttu – það er gott fyrir okkur að æfa í rigningu og kulda,“ segir hann, en þegar Moggamenn ræddu við majórinn var hins vegar tiltölulega stillt og bjart veður á æfingasvæðinu. „Það er eiginlega of gott veður núna,“ segir hann og hlær við.

Mörg hundruð sprengjur á svæðinu

Ásgeir Guðjónsson, sprengjusérfræðingur hjá LHG, segir þátttakendur þurfa að glíma við um 500 sprengjur á æfingunni.

„Landhelgisgæslan sér um að setja stóran hluta þeirra saman, en við höfum samstarf við NATO og höldum námskeið með aðildarríkjum bandalagsins þar sem þær eru settar saman,“ segir Ásgeir og bendir á að megnið af þeim sprengjum sem notast er við eigi sér fyrirmynd úr raunverulegum aðstæðum.

„Við byggjum sprengjurnar á upplýsingum frá NATO og setjum þær inn í sviðsmyndina hér. Æfingin snýst fyrst og fremst um sprengjusérfræðinginn og að hann fái eins mikla reynslu og hægt er og um leið enn bættari getu,“ segir Ásgeir.

Aðspurður segir hann reynt að hafa mikla fjölbreytni þegar kemur að gerð sprengnanna og staðsetningu þeirra. „Við erum t.a.m. með sprengjur á hafsbotni og aðrar sem berast með straumum og vindum. Það eru í raun engar tvær eins og þær eru einnig miserfiðar viðureignar,“ segir Ásgeir, en þær sprengjur sem notast er við á Northern Challenge eru ekki með alvöru sprengiefni. Þær eru hins vegar með virka rafrás. „Við getum því alltaf metið, þegar aðgerðum er lokið, hvort sprengjusérfræðingnum tókst ætlunarverk sitt eða ekki,“ bætir Ásgeir við.

Háþrýstivatn eyðir ógninni

„Markmiðið er ekki að sjá stórar og miklar sprengingar. Það sem við viljum gera er að koma í veg fyrir að sprengjan geri það sem henni er ætlað,“ segir Sean Heaton, undirsjóliðsforingi í konunglega breska sjóhernum.

Sprengjusérfræðingar nálgast óvirka sprengju sem liggur í grjótagarði hafnarinnar.
Sprengjusérfræðingar nálgast óvirka sprengju sem liggur í grjótagarði hafnarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Nær allar heimatilbúnar sprengjur hafa einhvers konar orkugjafa. Það sem við gerum til að koma í veg fyrir að þær springi er að skjóta vatni undir háþrýstingi inn í búnaðinn til þess að rjúfa rafrásirnar áður en þær geta gert það sem hryðjuverkamaðurinn vildi að þær gerðu,“ segir Heaton, en skömmu áður höfðu sprengjusérfræðingar gert óvirka heimatilbúna sprengju sem komið hafði verið fyrir í hafnargarðinum í Helguvík.

Fáeinum metrum frá mátti sjá franska kafara við störf í höfninni. Voru þeir þá að nálgast torkennilegan hlut sem maraði hálfur í kafi, en þar var um að ræða æfingadúkku sem tákna átti dauðan óvinveittan kafara og var sá að líkindum með sprengju utan klæða. Yfir Helguvíkurhöfn sveimaði svo lítill dróni, sem stjórnað var af bandarískum hermanni, og tók tækið myndir af atburðarásinni í og við höfnina.

Sprengjugallinn vegur alls 42 kíló.
Sprengjugallinn vegur alls 42 kíló. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar búið er að gera sprengju óvirka er hún færð sérfræðingum til rannsóknar. Bjarne B. Hundevad, majór í danska hernum, stjórnar rannsóknarstöðinni á æfingunni.

„Okkar starf hefst þegar sprengjusérfræðingarnir hafa lokið sínum störfum á vettvangi,“ segir Hundevad og bætir við að þeirra hlutverk sé í raun keimlíkt því sem lögreglumenn gera, þ.e. að afla eins mikilla upplýsinga og hægt er úr sprengjunni og rekja uppruna hennar. „Okkar hlutverk er því meðal annars að finna hina seku og átta okkur á atburðarásinni og hvaða tækni var notuð við sprengjugerðina,“ segir hann enn fremur.

Klæðast 5 milljóna króna vörn

Sprengjusérfræðingar víðsvegar um heim, þ.m.t. þeir sem starfandi eru hjá Landhelgisgæslunni, hafa aðgengi að sérstökum galla, sem sjá má á mynd hér til hliðar, og klæðast þeir honum þegar aftengja þarf sprengju. Gallinn kostar 5 milljónir króna, vegur 42 kíló og hefur 5 ára líftíma. Sprengjugallinn samanstendur af eins konar smekkbuxum, jakka og hjálmi, en klæðin eru m.a. gerð úr kevlar og eiga að vernda þann sem í þeim er fyrir sprengjuhöggi, sprengjubrotum, hita og eldi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »