Lagt til að Blikar sendi yngstu börnin á parket

Leikmenn meistarflokks Breiðabliks fagna sigri í Lengjubikarnum í fyrra. Myndin …
Leikmenn meistarflokks Breiðabliks fagna sigri í Lengjubikarnum í fyrra. Myndin er tekin í Kórnum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ef knattspyrnuiðkendum yngri flokka hjá Breiðabliki fjölgar mikið verður ekki unnt að ná viðmiðum um bestu æfingaaðstæður. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í greinargerð sem unnin var fyrir Kópavogsbæ um íþróttamannvirki Breiðabliks og aðstöðu til knattspyrnuiðkunar. Í henni er meðal annars lagt til að yngri flokkar félagsins æfi oftar á parketi.

Hjá Breiðabliki æfa ríflega 1.500 einstaklingar knattspyrnu, langflestir börn, en gert er ráð fyrir að þeir verði orðnir 1.800 árið 2025, ef mið er tekið af spá um 2% árlega fjölgun íbúa í Kópavogi. Félagið heldur úti einu öflugasta yngriflokkastarfi á Íslandi.

Greinargerðin var kynnt á fundi bæjarráðs Kópavogsbæjar fyrir 28. september. Hún var unnin af VSÓ ráðgjöf. Fram kemur að Fífan sé vel nýtt mannvirki en hægt sé að nýta húsið betur á morgnana og á kvöldin.

Léleg nýting í Fagralundi

Gervigrasið í Fagralundi er orðið 11 ára gamalt, að því er fram kemur í greinargerðinni, og er orðið úr sér gengið. Nýtingin á grasinu er aðeins um 30%.

Lagt er til að skipt verði um gervigras í Fagralundi og að völlurinn verði upphitaður. Þá er lagt til að nýta Fífu betur á morgnana í samráði við skóla og frístundaheimili bæjarins, auk þess sem lagt er til að húsið verði betur nýtt á kvöldin, eins og áður segir.

Senda þau yngstu á parket?

Athygli vekur að lagt er til að nýta megi grunnskóla og „parketrými“ í meira mæli fyrir yngri flokka félagsins, en vert er að geta þess að uppgangur íslenskrar knattspyrnu hefur meðal annars verið rakinn til þess að börn æfa á gervigrasi innandyra allt árið um kring, við bestu aðstæður.

Loks er nefnt að Kórinn sé knatthús í Kópavogi sem Breiðablik nýti ekki og því er velt upp hvort íþróttafélögin, HK og Breiðablik, gætu samnýtt mannvirkið til að stuðla að betri nýtingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert