Dósent segir spurningum ósvarað um lögmæti handtöku Thomasar Möller Olsen

Togarinn Polar Nanoq við bryggju.
Togarinn Polar Nanoq við bryggju. mbl.is/Eggert

Dr. Bjarni Már Magnússon, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir spurningum ósvarað í tengslum við handtöku lögreglu á Thomas Möller Olsen, sem nýlega var dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir að bana Birnu Brjánsdóttur.

Í færslu á Facebook-síðu sinni gerir Bjarni athugasemdir við svör Jóns H.B. Snorrasonar, aðstoðarlögregluþjóns og saksóknara hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar handtakan átti sér stað, sem sagði m.a. í viðtali við RÚV um helgina að yfirvöldum væri „viðurkenndur og ætlaður ákveðinn réttur í kjölfar og vegna brota sem framin eru í refsilögsögu landa, réttur til þess að grípa til aðgerða og til að koma þeim sem taldir eru viðriðnir málið fyrir dóm til að láta fjalla um málið þar.“

Var Jón að svara Bjarna, sem sagði í viðtali við RÚV á föstudag, að vafi léki á lögmæti handtöku Thomasar, þar sem farið hefði verið um borð í togarann Polar Nanoq utan landhelginnar, innan hinnar svokölluðu efnahagslögsögu. Ekki hefði verið um að ræða íslenska lögsögu og þá hefði skort samþykki fánaríkis togarans.

Í Facebook-færslu sinni vísar Bjarni m.a. til þeirrar fullyrðingar Jóns að samþykki fánaríkisins, þ.e. grænlenskra lögregluyfirvalda hefði sannarlega legið fyrir.

„Hvers vegna lagði ákæruvaldið ekkert skjal fram í Héraðsdómi þar sem fram kemur heimild grænlenskra yfirvalda fyrir aðgerð íslensku lögreglunnar? Hefði það ekki verið eðlilegt? Hver veitti þessa heimild fyrir hönd Grænlands? Hvað kemur nákvæmlega fram í henni? Ef heimildin var ekki í skriflegu formi, í hvaða formi var hún þá?“ spyr Bjarni.

Þá segir hann grundvallarmun á þessu máli og hinu svokallaða smyglskútumáli sem Jón vísar til, þar sem um hafi verið að ræða óslitna eftirför.

Bjarni segir málið ekki snúast um þvingunarráðstafanir sem fara út fyrir meðalhóf, eins og Jón gefi til kynna, heldur lögsögureglur. Þá bendir hann á Hæstaréttardóma þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ómerkja yrði héraðsdóma og vísa máli frá dómstólum þar sem Landhelgisgæsluna hefði skort lögsögu til valdbeitingarathafna gegn sakborninum á hafi úti.

„Þetta er afskaplega sorglegt mál. Aftur á móti telst Ísland til réttarríkja þar sem æskilegt telst að stjórnvöld fari að lögum og vandað sé sérstaklega til verka í sakamálum,“ segir Bjarni að lokum.

mbl.is